Rickard Anderson, maðurinn sem talinn er hafa myrt 10 manns í skotárásinni í Örebro er sagður hafa stjórnast af hatri gegn flóttafólki en hluti hinna myrtu komu frá Sýrlandi. Gunnar Smári Egilsson seigr það aðeins tímaspursmál hvenær álíka ódæði verði framið hér.
Sænskir fjölmiðlar hafa birt myndskeið sem nemandi við Risbergska-skólann í Örebro tók á meðan hann faldi sig inni á klósetti. Þar má heyra skothvelli og einhvern, sem talinn er vera skotmaðurinn, öskra „þið ættuð að yfirgefa Evrópu!“ en hluti þeirra sem féllu í árásinni voru Sýrlendingar.
Gunnar Smári Egilsson Sósíalistaforingi skrifaði Facebook-færslu við frétt af skotárásinni og segir aðeins tímaspursmál hvenær „siðlaust stjórnmálafólk“ hefur æst einhvern nógu mikið upp gegn innflytjendum að álíka ódæði verði framið hér á landi.
Hér má lesa færsluna í heild sinni:
„Enn eitt morðæðið keyrt áfram af hatri sem íslenskir stjórnmálamenn vilja endilega flytja inn, m.a. beint frá Svíþjóð. Líklega er aðeins tímaspursmál hvenær svona ódæði verður framið hér, trommað upp af siðlausu stjórnmálafólki sem talar um flóttafólk og innflytjendur sem ógn við menningu okkar og öryggi.“