Flokkur fólksins þarf ekki að endurgreiða þá styrki sem flokkurinn fékk greidda þrátt fyrir ranga skráningu hans en Vísir greinir frá. Eftir að hafa leitað til sérfræðinga hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið ákveðið að ekki séu forsendur til þess að krefja Flokk fólksins um endurgreiðslu á styrkjunum. Ráðuneytið hafi hins vegar gert mistök í málinu. Fleiri flokkar þáðu styrki þrátt fyrir ranga skráningu en Flokkur fólksins er sá eini sem er í dag ennþá rangt skráður en til stendur að laga það fljótlega. Flokkurinn hefur fengið 240 milljónir frá ríkinu á þeim tíma sem hann hefur verið rangt skráður. Hinir flokkarnir sem voru ranglega skráðir en hafa nú lagað skráninguna þurfa ekki heldur að endurgreiða þá styrki sem þeir fengu. „Það liggur auðvitað fyrir að framkvæmdin brást í ráðuneytinu þannig að eftirfylgni með því hverjir raunverulega ættu rétt á þessum greiðslum, uppfylltu skilyrði laganna, eftirfylgnin með því var ekki nógu góð,“ sagði Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra.