Þingmaður og fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins – Guðrún Hafsteinsdóttir – býður sig fram til formanns flokksins.
Þetta tilkynnti Guðrún á fjölmennum fundi í Salnum í Kópavogi í dag og sagði hún í ræðu sinni að flokkurinn væri í vanda sem og á krossgötum.
Guðrún segist vera tilbúin til að leiða flokkinn út úr þessum hremmingum.
Fram kemur á fréttavefnum Vísi að Guðrún vilji færa flokkinn úr aftursætinu í íslenskri pólitík í framsætið:
„Við fengum fyrr í vetur verstu kosninganiðurstöðu í sögu flokksins. Við erum ekki lengur í ríkisstjórn og að sumu leyti erum við komin úr bílstjórasætinu í aftursætið í íslenskum stjórnmálum. Þessu viljum við breyta! Þessu ætlum við að breyta,“ sagði Guðrún í dag.
Sagði Guðrún einnig að lykilinn að þessum umbreytingum væri sá að opna „faðm flokksins“ – gera Sjálfstæðisflokkinn aftur að breiðfylkingu borgaralegra afla:
„Laða aftur til okkar það fólk sem af ýmsum og ólíkum ástæðum hefur fundið sér annan pólitískan samastað á síðustu árum, um leið og við sækjum nýjan stuðning til nýrra kynslóða. Og þetta gerum við með því að sækja í grunngildi Sjálfstæðisflokksins. Við þurfum að finna aftur okkar kjarna,“ sagði Guðrún.