Það útspil Einars Þorsteinssonar borgarstjóra að slíta meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn virðist vera eitt mesta axarskaft í stjórnmálum borgarinnar á síðari tímum. Algjört upplausn ríkir og flokkarnir keppast um að lýsa því yfir að Einar sé ekki leiðtogi þeirra og borgarstjórastóllinn sé ekki hans lengur.
Ástandið er tekið að minna á öll þau ósköp sem gengi á í tíð Ólafs F. Magnússonar sem var dubbbaður upp í borgastjóra og dreginn á asnaeyrunum fram og til baka um hið pólitíska svið og endaði utangarðs í pólitík með ljóðstafi á vörunum.
Svo virðist sem Einar hafi „plottað yfir sig“ eins og Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, orðaði það í gær. Einar virðist hafa gert einskonar samkomulag við Viðreisn, Sjálfstæðisflokksinn og Flokk fólksins um að taka völdin í borginni. Síðar kom á daginn að Inga Sæland þvertók fyrir að vinna með Sjálfstæðisflokknum og kastaði Einari þannig undir vagninn. Þar með var draumur Einars úti og hann stimplaður sem Júdas, áttavilltur á pólitískum berangri, rétt eins og Ólafur F. forðum.
Upphlaupið gæti markað pólitísk endalok Einars. Það kemur í ljós á allra næstu dögum hvernig klúðrið endar …