Stefán Eiríksson útvarpsstjóri átti fremur undarlega innkomu í Söngvakeppnina um helgina þegar hann kom steðjandi á golfbíl til að skutla keppandanum og Húsvíkingnum Ágústi Þór Brynjarssyni skotspöl inn eftir gólfi tónleikahallarinnar í Gufunesi. Atriðið gerði ekki mikla lukku en Ágúst komst þó áfram.
Stefán er reyndar þekktur fyrir að koma sér inn í flesta dagskrárliði Ríkisútvarpsins og láta skært ljós sitt skína. Í einhverjum tilvikum hefur þetta glatt jafnt hal sem sprund sem njóa geislandi þokka og orðheppni útvarpsstjórans. Hermt er að biðröð sé meðal dagskrárgerðarmanna að fá foringja sinn til að bregða á leik.
Gárungarnir segja að hann eigi aðeins eftir að koma sér inn í veðurfregnirnar til að ná inn á alla helstu dagskrárliði …