Sanna Magdalena Mörtudóttir segist taka eitt skref í einu en útiloki ekki borgarstjórastólinn.
Nú þegar Einar Þorsteinsson borgarstjóri kom öllum að óvörum og sleit meirihlutasamstarfi sínu í borgarstjórn, eru ýmsar þreifingar í gangi meðal flokkanna í borginni. Nokkuð ólíklegt verður að teljast að Framsóknarflokkur Einars verði í næsta meirihluta, eftir að Inga Sæland lýsti því yfir að Flokkur fólksins hefði ekki áhuga á að hjálpa Sjálfstæðisflokknum að komast til valda í borginni. Gunnar Smári Egilsson, foringi Sósíalistaflokksins viðraði þá hugmynd að Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalista verði næsti borgarstjóri. En hefur hún áhuga á því?
Mannlíf heyrði í Sönnu og spurði hana út í hugmynd Gunnars Smára.
„Það er bara eitt skref í einu, ég er ekki komin svo langt í hugsun. Mér finnst bara mikilvægast að hvaða meirihluti sem tekur við fókusi á málefnin, sé með skýr sýn og stefnu á því hvernig er hægt að halda vel á málum þannig að það sé það besta fyrir borgarbúa.“
Aðspurð hvort hún hefði verið tekið eftir einhverjum titringi hjá meirihlutanum áður en Einar sleit samstarfinu svaraði Sanna: „Það var alveg augljóst að þau voru ekki samstíga í öllu en ég bjóst nú ekki við því að þetta myndi fara með þeim hætti sem þetta gerðist. Þetta virkaði mjög skyndilegt.“
En komist Sósíalistaflokkurinn í meirihluta, hver verða aðaláherslur Sósíalista?
„Það eru náttúrulega húsnæðismálin, það er eitthvað sem við verðum að einblína á núna, að við séum að fá húsnæði fyrir þau sem þurfa mest á því að halda. Félagsleg uppbygging, óhagnaðardrifin uppbygging. Svo auðvitað skólamálin og samgöngur.“