„Það er vitað hver hann var og það kemur víst í ljós að forráðamenn hans heima bregðast þannig við að þau fóru að reyna að bjarga honum. Út frá kannski sinni umhyggju fyrir honum. Reyna að milda afleiðingarnar fyrir hann. Það tafði rannsóknina eitthvað,“ segir Birgir Karl Óskarsson, faðir Bryndísar Klöru sem var stungin til bana á menningarnótt árið 2024. Tvö önnur ungmenni slösuðust í atlögu hnífamannsins sem lagði á flótta eftir atvikið. Hann var fyrrverandi kærasti einnar stúlkunnar í bílnum og hafði elt hana í gegnum staðsetningarapp í síma hennar með þeim hrikalegu afleiðingum sem blasa við.
Foreldrar Bryndísar Klöru, Birgir Karl og Iðunn Eiríksdóttir stigu fram í þættinum Kompási á Stöð 2 og sögðu sögu dóttur sinnar og lýstu þeirri óbærilegu sorg sem fylgir andláti hennar. Því var lýst að Bryndís var stungin undir handlegg þegar hún reyndi að draga árásarmanninn frá stúlkunni. Hún hlaut alvarlegan áverka á hjarta og fór í hjartastopp á Skúlagötu þar sem hnoðað var í hana lífi. Bryndís Klara lést af sárum sínum, tæpri viku eftir árásina. Hún var aðeins sautján ára.
Forráðamenn drengsins voru handteknir á menningarnótt, grunaðir um að hafa komið sönnunargögnum undan við rannsókn málsins. Fólkið er grunað um hylmingu. Þau sendu árásarmanninn í sturtu eftir heimkomuna. Blóðug föt hans voru sett í þvottavél og hnífnum sem notaður var við ódæðisverkið var komið undan. Einnig laug fólkið til um atburðarásina í skýrslutökum. Í þættinum segir að lögregla hafi fundið hnífinn í bakpoka í skottinu á bifreið forráðamanna ódæðismannsins.
Mál forráðamannanna var sent til héraðssaksóknara sem felldi það niður vegna fjölskyldutengsla við drenginn. Slíkt er ekki refsivert þegar um er að ræða nána vandamenn. Birgir á erfitt með að skilja ákvörðun fólksins að reyna að fela glæpinn.
„Ég skil það en skil það samt ekki. Ég hefði ekki brugðist svona við,“ sagði Birgir Karl í Kompási.
Hnífamaðurinn hefur ekki verið nafngreindur. Í Kompási var upplýst að hann hefði játað á sig manndráp. Mál hans er fyrir dómstólum.