Atli Þór Fanndal tætir formannsbaráttu Sjálfstæðisflokksins í sig og segir flokkinn í „miklu rusli“.
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, Atli Þór Fanndal skrifaði færslu á Facebook í gær þar sem hann tekur fyrir formannsbaráttu Sjálfstæðisflokksins. Segir hann innihaldið hafa vikið fyrir „frasaflóði“.
„Það er svolítið skemmtilegt merki um hvað staða Sjálfstæðisflokksins er vond og atgervisflóttinn rosalegur að þrír aðilar hafa boðað framboð sitt. Áslaug Arna, Guðrún Hafstein og Snorri Ásmundsson. Framboðsræður turnanna tveggja bera með sér einkenni flokks sem er með hugmyndafræðilegan hreinleika á heilanum. Ræðurnar eru eins og frá gervigreind; aftur í ræturnar, finna gildin, Sjálfstæðisstefnan, munið hvað við vorum töff í gamla daga og stefna fram á við… innihaldið er alveg farið. Engar útskýringar fylgja frasaflóðinu.“
Bendir hann einnig á hvorki Áslaug Arna né Guðrún tali um vilja til að starfa með öðrum flokkum í framtíðinni en gefur þó Snorra Ásmundssyni prik fyrir að tala fyrir slíku í sinni tilkynningu um formannsframboð.
„Í því samhengi vekur auðvitað athygli að formannsefnin tvö sem mest athygli er á sjá enga ástæðu til að tala um framtíð flokksins á þeim nótum að hann verði góður samstarfsaðili. Flokkur sem kann að vinna í teymi, á sér samkennd og bætir einhverju við í samstarfi. Hann má þó eiga það listamaðurinn sem flokkurinn þykist ekki sjá að í hans tilkynningu kom fram að Íhaldsbyltingin Sjallar 2.0 gerði ráð fyrir samstarfi við einhvern. Og svo má auðvitað muna að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir sækist ekki eftir neinu embætti í flokknum lengur þrátt fyrir að vera augljóslega ein af fáum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem enn er fær um að eiga í samtali við fólk utan Valhallar. Hún er sem sagt bara 90% sammála fúlu köllunum. Slíkt eru auðvitað algjör svik við flokk í henglum og afneitun. Burt með svoleiðis!“
Að lokum segir Atli Þór að ekkert stuð sé á flokknum né stemning en þar sé hins vegar að finna „fullt af átökum“.
„Þetta er bara svolítið skemmtileg mælistika á hvað flokkurinn er í miklu rusli. Ekkert stuð, engin stemning en fullt af átökum um skilgreiningu á rótunum og fimmaurar um hvað samstarfsflokkarnir tveir sem Sjálfstæðisflokkurinn tortrímdi eru nú glataðir.
Þetta er vegna þess að í Valhöll eru það svik við byltinguna að hafa smá gaman… Fólkið skal barið til frelsis!“