Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis segist vilja gera alla Íslendinga að kapítalistum. Það hyggst hann gera með því að gefa öllum landsmönnum hlut í ríkisbönkunum.
„Í sjálfu sér er ákvörðunin tiltölulega einföld. Meirihluti Alþingis getur sameinast um að afhenda öllum Íslendingum eignarhluti í tveimur bönkum, sem þeir eiga en ríkissjóður heldur á í umboði þeirra. Með því yrði ýtt undir þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði og margir fengju tækifæri til að stíga fyrstu skrefin í átt að því að gerast kapítalistar,“ skrifar Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokkins, í Morgunblaðið í dag.
Þessi hugmynd er í sjálfu sér ekki ný enda varpaði formaður Sjálfstæðisflokksins henni fram í ræðu á landsfundi árið 2015. Hún hefur hins vegar lítið verið rædd fram til þessa þótt reglulega skjóti umræða um sölu Landsbankans og Íslandsbanka upp kollinum. Óli Björn segist búa við andstöðu við þessa hugmynd því þeir séu enn til sem trúi því í einlægni að samfélaginu vegni best ef flest atvinnutæki eru í höndum ríkisins.
Samkvæmt samkomulagi milli stjórnarflokkanna er stefna ríkisstjórnarinnar sú að ríkið verði áfram leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einum banka. Óli Björn segir þetta sanngjarna málamiðlun en bendir þó á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins telji enga þörf á eignarhaldi ríkisisins á fjármálafyrirtækjum til lengri tíma litið.
„Mismunandi áherslur stjórnarflokkanna og ólík viðhorf til hlutverks ríkisins á fjármálamarkaði kemur ekki í veg fyrir að tekin sé ákvörðun um valddreifingu – að afhenda landsmönnum eignarhlut í bönkunum tveimur sem eru í eigu ríkisins. Um leið er fallist á sanngjarna kröfu um að almenningur, sem tók þátt í endurreisn fjármálakerfisins, fái eitthvað í sinn hlut – 10-20% á næstu fjórum til fimm árum, samhliða því sem skipulega er dregið úr eignahaldi ríkisins á fjármálamarkaði,“ skrifar þingmaðurinn að lokum.