Þýski iðnaðarrisinn Heidelberg er skoða möguleika á að opna mölunarverksmiðju nærri Húsavík en fyrirtækinu var hafnað í íbúakosningu í Ölfusi. Rúmlega 70% þeirra sem tóku þátt í kosningunni vildu ekki starfsemi fyrirtæksins í sveitarfélaginu.
Stuttu eftir þessa afgerandi höfnun í desember gaf fyrirtækið út að það myndi skoða aðra staði á landinu fyrir verksmiðjuna og gekk Þorsteinn Víglundsson, talsmaður Heidelberg, milli fjölmiðla og sakaði Ölfus og íbúa þess um svik og sagði að þeir myndu sjá eftir þessu.
„Þetta er ákveðin lífsreynsla að fara í gegnum í svona verkefni í sveitarfélagi. Umræður verða heitar og dregnar niður í pólitískar skotgrafir, þar verður sannleikurinn oft fyrsta fórnarlambið. Ýmislegt sem þar fór fram sem átti sér enga stoð í veruleikanum,“ sagði Þorsteinn við Vísi í desember.
Fyrirtækið hefur nú leitað á náðir Norðurþings og kynnti verkefnið á fundi byggðaráðs. Ráðið tók þó ekki afstöðu til málsins og eru viðræður á algjöru frumstigi að svona stöddu. Fyrirtækið horfir sérstaklega til móbergsvinnslu í framburði Jökulsár á Fjöllum. Mögulegt er að sveitarfélagið skrifi undir viljayfirlýsingu við Heidelberg í framtíðinni ef viðræður ganga vel.