Veikinda varð vart um borð í íslensku skipi sem statt var um 60 sjómílur norður af Hornströndum í fyrradag en þyrslusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð á vettvang.
Á níunda tímanum á þriðjudagsmorgun tók áhöfnin á TF-GRO á loft frá Reykjavíkurflugvelli en samkvæmt heimasíðu Gæslunnar er önnur þyrluáhöfn sett í viðbragðsstöðu í Reykjavík þegar farið er í útköll á borð við þessa, til að gæta fyllsta öryggis. Rétt fyrir klukkan tíu var þyrla Landhelgisgæslunnar komin að hlið skipsins.
Byrjaði áhöfn þyrlunnar á að slaka tengilínu niður til áhafnar skipsins. Því næst seig sigmaður um borð svo hægt væri að undirbúa sjúklinginn undir að vera hífður um borð í þyrluna. Gekk hífingin vel og var skipverjinn veiki fluttur á sjúkrahús í Reykjavík.
![](https://www.mannlif.is/wp-content/uploads/2025/02/ferill.png)
Mynd: lhg.is