Þingflokki Sjálfstæðisflokksins hefur verið sparkað út úr vinnuherbergi sínu á Alþingi en flokkurinn hefur haft sama herbergi í meira en 80 ár. Þetta er ákvörðun forsætisnefndar Alþingis en áður hafði Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, úrskurðað um að Sjálfstæðisflokkurinn myndi halda herberginu. Ljóst er að þingflokkur Samfylkingarinnar muni fá herbergið til afnota en flokkurinn vildi fá herbergið verandi fjölmennasti flokkurinn á Alþingi.
„Það hefur því miður sýnt sig að Samfylkingunni er í hinum ýmsu málum ekki mjög umhugað um reglur og hefðir á okkar háa Alþingi. Reglur um þingflokksherbergi voru skýrar enda úrskurðaði skrifstofustjóri Alþingis að samkvæmt þeim ætti Sjálfstæðisflokkurinn að halda herbergi því sem hann hefur verið í síðan 1941,“ er haft eftir Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins.
„Þá bregst Samfylkingin við í krafti nýfengins meirihlutavalds síns og breytir með einu óvönduðu pennastriki reglunum til þess eins að taka herbergi Sjálfstæðisflokksins. Mér þykir þetta í raun með eindæmum lítilmannlegt en Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að eyða meiri tíma í þetta mál og þau þurfa að eiga við sig að hafa ákveðið að forgangsraða kröftum sínum og athygli á fyrstu dögum þingsins í að hafa af okkur þetta herbergi.“