Skotvopn fannst í gærkvöldi upp á þaki Laugalækjarskóla en það voru þrír piltar sem höfðu klifrað upp á þak skólans sem fundu skotvopnið í poka. Þeir höfðu í kjölfarið samband við lögregluna.
Í samtali við Mannlíf staðfesti Ásmundur Rúnar Gylfason, stöðvarstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að um skotvopn væri að ræða en upphaflegar fréttir um málið voru óljósar í þeim efnum. Ekki fundust nein skotfæri á svæðinu.
Að sögn Ásmundar er lögreglan í góðu samstarfi við skólastjórnendur um málið og er unnið að því að upplýsa foreldra um það á góðan og skýran máta. Lögreglan mun skoða myndbandsupptökur úr myndavélum skólans til að reyna komast að því hvernig skotvopnið komst upp á þakið.
Samkvæmt heimildum Mannlífs er um lágt þak á húsnæðinu að ræða sem börn leika sér að klifra upp á reglulega.