Þrír nemendur fundu byssu á þaki Laugalækjarskóla í síðustu viku og vakti málið óhug hjá mörgum foreldrum í hverfinu. Lögreglan var fljót að rannsaka málið og var einstaklingur um fertugt handtekinn stuttu eftir að byssufundurinn var tilkynntur. Samkvæmt lögreglu tengist maðurinn ekki skólanum á neinn máta.
Mannlíf hafði samband við Stein Jóhannsson, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, til að spyrjast fyrir um framhaldið en hann tók við starfinu í síðasta mánuði eftir að hafa verið rektor Menntaskólans í Hamrahlíð.
„Eftir að málið hafði verið metið og í ljós kom að það er alls ótengt skólanum var ekki að heyra á börnum né foreldrum að það hafi verið aðkallandi,“ sagði Steinn þegar hann var spurður hvort börnunum yrði boðin áfallahjálp. „Skólastjóri og kennarar hafa rætt um málið inni í bekkjum og börnum hefur verið gefið tækifæri til að tjá sig.“
Hefur eitthvað sambærilegt komið upp í skólum Reykvíkur?
„Nei, við vitum ekki til þess. Þetta mál er einsdæmi,“ sagði Steinn. Þá sagði hann einnig að þegar eitthvað þessu líkt komi upp þurfi að vega og meta viðbrögð með viðbragðsaðilum og upplýsa skólasamfélagið eins vel og hægt er.
Mannlíf hafði samband við foreldra nokkurra barna í skólum og tóku þeir allir undir að kennarar í skólanum hafi staðið sig vel í málinu en mögulegt ætti að bjóða drengjunum sem fundu byssuna áfallahjálp.