Þriðjudagur 14. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Leggið nafnið á minnið: Cori Gauff er næsta ofurstjarna í íþróttaheiminum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þrátt fyrir að úrslitin í Wimbledon-mótinu séu hvergi nærri ráðin, þá er stjarna mótsins nú þegar fundin. Þegar fram líða stundir verður þetta mót ávallt mótið sem Cori Gauff steig inn í sviðsljósið.

Þegar fyrstu spaðarnir fóru á loft hafði enginn utan tennisheimsins heyrt Gauff getið, en þessi 15 ára stúlka frá Delray Beach í Flórída lét strax að sér kveða í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar þegar hún sigraði átrúnaðargoðið sitt, sjálfa tennisdrottninguna Venus Williams. Hún sigraði síðan Magdalenu Rybarikovu og Polonu Hercog áður en hún beið lægri hlut gegn hinni rúmensku Simonu Halep í 16-manna úrslitum.

Þrátt fyrir það er Gauff orðin stórstjarna í Bandaríkjunum og sjálf hefur hún ekki farið varhluta af því. „Þetta er algjörlega klikkað, fólk á veitingastöðum og úti á götu er farið að þekkja mig. Ég hélt að þetta myndi aldrei gerast. Mig dreymdi alltaf um að keppa á Wimbledon og öðrum risamótum en mig hafði ekki dreymt um að fólk myndi í alvöru þekkja mig,“segir Gauff í viðtali við CNN. Stórstjörnur og fyrirmenni hafa keppst við að ausa hana lofi, þeirra á meðal Michelle Obama, fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna.

Gauff segir Williams-systur, þær Venus og Serena, vera fyrirmyndirnar í hennar lífi og er herbergið hennar hlaðið veggspjöldum af þeim. Sú síðarnefnda segir að brátt verði það Gauff sem muni prýða veggi ungra tennisaðdáenda. „Hún er að standa sig frábærlega. Ég er mikill aðdáandi og mjög spennt fyrir hennar hönd,“ segir Serena.

Önnur goðsögn í tennisheiminum, Martina Navratilova, er sama sinnis. „Ég hef á tilfinningunni að Gauff muni breyta leiknum. Hún var fædd til að gera þetta. Ég man ekki eftir neinum sem kom inn með álíka stormi inn á stórmót.“

Gauff segist mjög upp með sér að helstu stjörnur íþróttarinnar séu að fylgjast með henni. Hún er nú þegar farin að undirbúa sig undir Opna bandaríska meistaramótið og viðurkennir að hún þurfi að vinna enn betur í sínum leik ef hún ætlar að komast á þann stað sem hún ætlar sér, á topp heimslistans. „Það verður mjög sérstakt fyrir mig því ég hef farið og horft á þetta mót síðan ég var átta ára gömul.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -