Ný bandarísk rannsókn bendir til þess að ungmenni eru ólíklegri til að neyta kannabisefna þar sem neysla þeirra hefur verið lögleidd.
33 ríki Bandaríkjanna hafa lögleitt kannabisefni í lækningaskyni, þar af hafa 10 þeirra lögleitt kannabis að fullu. Vísindamenn við Montana ríkisháskólann skoðuðu kannabisneyslu ungmenna á árunum 1993 til 2017 og er niðurstaða þeirra sú að þrátt fyrir að neysla hafi aukist heilt yfir á landsvísu, þá hefur hún dregist saman um nærri 10 prósent í þeim ríkjum þar sem neysla kannabis hefur verið lögleidd að fullu. BBC greinir frá.
Í þeim ríkjum þar sem neysla kannabis er eingöngu leyfð í lækningaskyni urðu engar breytingar.
Dr. Mark Anderson, einn höfunda rannsóknarinnar, útskýrir að erfiðara sé fyrir ungmenni, sem ekki hafa náð tilskildum aldri, að kaupa kannabis af löggildum söluaðilum en á svarta markaðinum. Auk þess er verðið á efnunum jafnan hærra þar sem þau hafa verið lögleidd.
Þessi niðurstaða styður aðra rannsókn sem birt var í desember og sýndi að neysla ungmenna á kannabis í Washington-ríki minnkaði eftir að efnið var lögleidd þar árið 2012. Hins vegar sýndi sambærileg könnun í Colorado, þar sem neysla var lögleidd árið 2014, að neyslumynstur framhaldsskólanema hefði ekkert breyst.
Dr. Anderson bendir á að flest ríkin hafi einungis nýlega lögleitt neylsu kannabisefna og því sé þörf á frekari rannsóknum á næstu árum.
Sjá einnig: Spurning um sjálfsákvörðunarrétt
Sjá einnig: Neysla eykst við lögleiðingu