Þá er Heiða Björg Hilmisdóttir orðin borgarstjóri Reykjavíkur en tilkynnt var um það á fréttamannafundi sem „Kryddpíurnar“ héldu í gær, einmitt á afmælisdegi Heiðu. Á fundinum voru ræddar áherslur þessa nýja meirihluta og er nokkra áhugaverða hluti þar að finna og má kannski helst nefna þá stórkostlegu ákvörðun að leggja niður hin gagnslausu íbúaráð hverfa Reykjavíkur sem hafa lítið gert annað en að búa til aukið gervilýðræði.
„Kryddpíurnar“ ætla einnig að byggja tíu þúsund íbúðir í Úlfarsárdal, auka á ferðatíðni strætó og þær ætla að endurskoða leikskólakerfið.
Þó virðist „Kryddpíu“ nafnið fara gífurlega í taugarnar á sumum landsmönnum og Stefán Máni Sigþórsson rithöfundur er einn af þeim. Þegar greint var frá nafninu voru viðbrögðin að hans eigin sögn að æla úr sér sálinni. Það er vonandi fyrir bókaunnendur að Stefán eigi smá sál eftir í sér til að skrifa fleiri verðlaunabækur …