Væntanleg íslensk heimildamynd varpar nýju ljósi á líf geimfaranna sem æfðu tunglgöngur á Íslandi. Framleiðandi myndarinnar, Örlygur Hnefill Örlygsson, segist hafa viljað einblína á mannlega þátt ferðanna.
„Það er þannig að ég er búinn að horfa á ótrúlega margar myndir um tunglferðirnar og hef áttað á mig á því að þær einblína meira og minna allar á tæknilegu hliðina. Mannlega þáttinn hefur vantað. Þannig að mig langaði til að gera mynd sem kafaði ofan í þann hluta,“ segir Örlygur þegar hann er spurður hvað hafi vakið fyrir honum með gerð heimildamyndarinnar Cosmic Birth og hvernig hún sé frábrugðin öðrum myndum um tunglferðirnar. Með þessa nálgun að leiðarljósi segist hann hafa orðið margs vísari við gerð myndarinnar.
„Geimfararnir sem ég ræddi við segjast til dæmis allir hafa hugsað mikið til fjölskyldna sinna enda óvíst að menn snéru aftur heim. Þeir segja líka allir að það merkilegasta við að komast til tunglsins hafi verið að sjá jörðina úr fjarska. Með öðrum orðum fóru þeir til tunglsins og uppgötvuðu jörðina. Það var sterkasta upplifun þeirra. Mér fannst grámagnað að komast að því. Og hvernig líf þessara manna sem voru algjör hörkutól í upphafi tók stakkaskiptum. Einn, sem var menntaður verkfræðingur úr flughernum, gerðist til að mynda ljóðskáld. Annar málari. Þessar ferðir gjörbreyttu þeim. Það hefur ekkert verið fjallað um það. Þar til nú.“
„Ég talaði meðal annars við son Neils Armstrong. Hann sagði mér að eftir tunglferðina árið 1969 hafi pabba hans eiginlega hvergi liðið betur en á Íslandi.“
Þegar Örlygur og félagar öfluðu efnis fyrir myndina létu þeir sér þó ekki nægja að taka eingöngu viðtöl við geimfarana því í henni er einnig rætt við fjölskyldumeðlimi manna sem eru fallnir frá. „Ég talaði meðal annars við son Neils Armstrong,“ nefnir hann. „Hann sagði mér að eftir tunglferðina árið 1969 hafi pabba hans eiginlega hvergi liðið betur en á Íslandi. Það var eini staðurinn sem hann fékk algjöran frið. Hann bast landinu því sterkum böndum. Í því samhengi rifjaði sonurinn upp ferð með pabba sínum til Íslands árið 1980 og segir að það haf verið einn besti tími sem þeir feðgar áttu saman. Það er margt svona sem kemur fram í þessari heimildamynd. Alls konar hlutir sem ekki hafa komið fram áður.“
Skemmtilegt ferli
En hvernig fékk Örlygur eiginlega allt þetta fólk, þar á meðal þjóðþekkta Bandaríkjamenn, til að koma fram í myndinni og ræða þetta? „Í stuttu máli má rekja það til Könnunarsögusafnsins sem ég stofnaði á Húsavík 2009. Það ár heyrði ég fyrst af æfingum Apollo-geimfaranna á Íslandi. Að þær hefðu farið fram nánast í bakgarðinum okkar. Mér fannst það ótrúlega merkilegt og fór að safna ýmsu sem því tengdist. Þannig varð safnið til. Í kjölfarið setti ég mig í samband við nokkra geimfarana sem voru hér við æfingar og bauð þeim að heimsækja safnið. Við höfum verð í góðu og reglulegu bandi síðan þá og á einhverjum tímapunkti rann allt í einu upp fyrir mér að ég var með óvenju gott aðgengi að mönnum sem tóku þátt í einum merkilegasta viðburði mannkynssögunnar.
Og ljósi nálægðar við þessa menn og í ljósi alls þess sem þeir hafa sagt mér, sem er meira en ég hef nokkurn tímann heyrt þá segja opinberlega, ákvað ég spyrja hvort þeir væru til í að ræða þetta í mynd, sem þeir og samþykktu, líkast til vegna góðs kunningsskapar.“
Ljóst er að mikil vinna liggur baki gerð myndarinnar og Örlygur neitar ekki að stundum hafi hún tekið á. „Já, enda við höfum verið að viða að okkur miklu efni í gegnum árin. Bara á fyrri hluta þessa árs flökkuðum við til dæmis á milli sex fylkja í Bandaríkjunum til að taka viðtöl við geimfarana. Svo hefur mikil vinna farið í eftirvinnsluna og við að láta semja tónlist fyrir myndina en þetta hefur skemmtilegt ferli.“
Heimildamyndin Cosmic Birth verður frumsýnd samtímis í Bíó Paradís og á RÚV 20. júlí næstkomandi.