Það var aðeins vika í útskrift hjá nokkrum íslenskum flugverkjanemum í Tulsa, Bandaríkjunum í mars 1989 og félagarnir ákváðu að fara út á lífið. Einn þeirra átti hins vegar eftir að enda helsærður á sjúkrahúsi áður en kvöldið hófst.
Skólafélagarnir voru fimm saman í sendiferðabíl og voru að skála. Það fór hins vegar í taugarnar á eiganda bílsins, sem var einn af skólafélögunum. Líkaði honum það svo illa að hann ákvað að draga einn þeirra út úr bílnum og misþyrma honum. Barði hann kunningja sinn svo illa að hann lá meðvitundarlaus eftir á götunni. Aðrir í bílnum áttuðu sig í fyrstu ekki á alvarleika málsins og héltu ferð sinni áfram eftir að árásarmaðurinn var aftur kominn upp í bílinn. Stuttu síðar áttuðu þeir sig þó á stöðunnu og stukku út út bílnum og gáðu að félaga sínum. Árásarmaðurinn og ökumaður bílsins óku hins vegar á ball og skeyttu engu um hinn særða.
Þegar mennirnir komu að blóðugum félaga sínum, náðu þeir að draga hann í nærliggjandi verslun þar sem hringt var á sjúkrabíl. Sögðu læknarnir sem tóku á móti honum að ef hann hefði legið í hálftíma lengur, hefði honum blætt út. Svo illa nefbrotinn var hann að hann þurfti að gangast undir aðgerð. Í frétt sem DV skrifaði um málið, kemur fram að maðurinn þyrði ekki að kæra ofbeldissegginn, af ótta við frekari árásir. Ekki veit Mannlíf um málalok í þessu máli en ef lesendur eru með upplýsingar má alveg senda línu.
Hér má lesa frétt DV um málið:
Vika í útskrift flugvirkja í Tulsa í Bandaríkjunum:
Íslenskum flugvirkjanema misþyrmt
-af landa sínum, sér líklega af prófskírteini og 200 þúsundum í lækniskostnað
„Eigandi sendiferðabílsins snaraðist út, svipti rennihurðinni upp og dró þann sem sat næst hurðinni út á götu. Þar fékk sá hnéhögg í kviðinn og þar sem hann var nokkuð við skál, töluvert minni og léttari, var lítið mál að fella hann. Árásarmaðurinn lét sér þetta ekki nægja heldur sparkaði hann margsinnis í höfuð hins. Að því búnu fór hann upp í bílinn á ný og sagði bílstjóranum að keyra áfram. Þeir sem sátu aftur í áttuðu sig ekki strax á því sem gerst hafði en á næsta rauða ljósi, nokkru frá, fóru þeir út úr bílnum og að hinum slasaða sem lá í blóði sínu á götunni. Var honum draslað meðvitundarlausum að sjoppu þar sem náðist í lögreglu og sjúkrabíl. Að sögn læknanna hefði maðurinn ekki þurft að liggja nema í tæpan hálftíma á götunni til að blæða út,“ sagði viðmælandi DV í Tulsa við blaðið í gær. Hann vildi ekki láta nafns síns getið. Því sem lýst er hér að ofan átti sér stað meðal íslenskra flugvirkjanema í Tulsa, Oklahoma, í Bandaríkjunum á föstudagskvöld. Þeir voru fimm saman í sendiferðabíl og voru eitthvað að skála. Eiganda bílsins, sem sat í farþegasætinu frammi í, mislíkaði það og bað kunningja sína hætta. Þeir sinntu því ekki og ákvað eigandinn því að sýna að honum væri alvara með fyrrgreindum hætti. Á eftir fóru bílstjórinn og eigandi bílsins á ball.
Illa farinn
„Það versta í þessu máli er að þeir eiga báðir að útskrifast á fimmtudaginn í næstu viku en mjög tvísýnt um hvort sá er var barinn nái því. Hann hefur verið alveg miður sín auk þess sem stórsér á honum. Hann er illa nefnbrotinn, með skurð í andliti og svo bólginn að hann sá ekkert með öðru auganu fyrstu dagana. Hann hefur misst úr skólanum og verður að vinna það upp fyrir fimmtudaginn þegar allt verður að vera á hreinu. Hann á að fara til sérfræðings í vikunni þar sem gera verður aðgerð á nefinu sem er illa skakkt. Þá missir hann enn meira úr skólanum. Það er ólykt af þessu.“ Að sögn viðmælanda DV nemur sjúkrahús- og lækniskostnaður þegar yfir þúsund dölum og mun líklegast ná 3-4 þúsund dölum, 150-200 þúsund krónum, eftir sérfræðingsheimsókn og aðgerð á nefinu. Allt er í óvissu hvort árásarmaðurinn borgi þennan kostnað. En hefur hann verið kærður?
Þorir ekki að kæra
„Maðurinn þorir satt að segja ekki að kæra af ótta við að árásarmaðurinn komi aftur í heimsókn. Sá er þekktur fyrir allt annað en prúðmennsku. Hefur hann oft gengið í skrokk á mönnum og verið fullur. Var hann til að mynda settur í að hreinsa vegkanta á þjóðveginum til að bæta fyrir eitthvert ódæðið.“