Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur fengið afhent fyrsta eintakið af bókinni Leitin að peningunum – leiðarvísir að fjárhagslegu sjálfstæði sem umboðsmaður skuldara gefur út en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
Höfundar bókarinnar eru Kolbeinn Marteinsson og Gunnar Dofri Ólafsson og myndskreyting er í höndum Ránar Flygenring en hún þykir hafa verið einn besti teiknari landsins á undanförnum árum.
Fyrir fólk á öllum aldri
„Umboðsmaður skuldara hefur frá árinu 2020 staðið fyrir fræðsluverkefninu Leitin að peningunum og er bókin skrifuð í framhaldi af því. Hún er hugsuð fyrir allt fólk sem vill tileinka sér betri hegðun þegar kemur að peningum og um leið taka fyrsta skrefið í átt að fjárhagslegu sjálfstæði. Bókinni er í senn ætlað að vera hagnýt og hvetjandi fyrir lesendur og er skrifuð jafnt fyrir fermingarbörn sem forstjóra.“
„Peningar eru alltumlykjandi í okkar daglega lífi. Fjölmargt fólk þarf að leita að peningum í hverjum mánuði og jafn vel á hverjum degi og ég vona því að bókin nái sem víðast,“ sagði Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.