Boðið verður upp á nokkuð óvenjulega messu á sunnudagskvöldið í Hjallakirkju á sunnudaginn næstkomandi en þá verður svokölluð Minecraft messa haldin í kirkjunni.
„Hugmyndin kviknaði í raun út frá tónlistinni í leiknum. Hún er alveg frábær og passar fullkomlega við orgelið. Ég er mjög spenntur að leyfa fólki að heyra útkomuna.” sagði Kristján Hrannar Pálsson, organisti Digranes- og Hjallakirkju, en Minecraft er einn af vinsælustu tölvuleikjum sögunnar. „Annars er margt í Minecraft sem fær mann til að hugsa um tilgang lífsins, æðri mátt og svo framvegis.“
„Í leiknum eru nokkrar stillingar eftir erfiðleikastigi og sú byrjendavænsta heitir sköpunarhamur (e. creation mode). Spilarar geta byggt með kubbum sína eigin veröld – allt frá berggrunni upp til skýja og leyft þannig sköpunarkraftinum að njóta sín. Spilarar geta ræktað landið, mótað fjöll og firnindi, haf og skóglendi, byggt allt frá litlum þorpum í stærri samfélög og annað sem þeim dettur í hug. Hugmynd leiksins að byggja eða yrkja jörðina rímar afskaplega vel við fyrstu kafla Biblíunnar,“ sagði séra Helga Bragadóttir prestur um messuna.
Jafnframt mun barnakór Digranes- og Hjallakirkju koma fram og leiða sönginn.