Undanfarnar vikur hefur Morgunblaðið með Stefán Einar Stefánsson í broddi fylkingar fjallað ítarlega um hið svokallaða „byrlunarmál“ Páls Steingrímssonar en hann hefur ýjað að því að starfsmenn RÚV og aðra fjölmiðlamenn hafi tekið þátt í byrlun á sér. Hefur hann sagt að fyrrverandi eiginkona sín hafi byrlað sér ólyfjan sem leiddi til þess að hann var nær dauða en lífi. Ekki fundust neinar vísbendingar um byrjun við blóðrannsóknir á Páli.
Fjallað hefur verið ítarlega um málið í Mannlífi, Vísi og Nútímanum á þeim árum sem liðið hafa síðan það kom fyrst upp og hefur lítið, ef eitthvað, nýtt komið fram í fréttum Morgunblaðsins.
Símadeilur
Eitt af lykilgögnum málsins að mati Páls og Morgunblaðsins er sú kenning að fyrrverandi eiginkona hans hafi stolið síma hans meðan hann lá meðvitundarlaus á sjúkrahúsi. Hún á að hafa skilið eftir eins síma með nánasta sama símanúmeri og Páll er með. Ýjað hefur verið að því að RÚV hafi viljandi keypt númer líkt númeri Páls á sama tíma og honum var byrlað til að hann yrði ekki var við að hann væri með rangan síma. Sú meinta byrlun á að hafa átt sér stað árið 2021.
Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri RÚV, neitaði þessum ásökunum og hélt því fram að símanúmerið umrædda hafi verið eigu RÚV frá 2018 og því ekkert hæft í þessari kenningu sem Morgunblaðið setti fram. RÚV hefur nú sent frá sér reikning frá fjarskiptafyrirtækinu Sýn sem staðfestir að umrætt símanúmer hefur verið í eigu RÚV síðan 2018.
Morgunblaðið hefur í kjölfarið beðið lesendur sína afsökunar á umfjöllun sinni en sú afsökun birtist í blaðinu í dag.