Laugardagur 1. mars, 2025
2.8 C
Reykjavik

Stefán og Stefán deila: „Má ég brjótast inn hjá þér?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi, og Stefán Einar Stefánsson, fjölmiðlamaður Morgunblaðsins, eru ekki alveg á sama máli þegar kemur að hinu svokallaða „byrlunarmáli“ Páls Steingrímssonar skipsstjóra. Morgunblaðið hefur á undanförnum vikum rifjað upp þetta gamla mál en mikilvægur hluti í umfjöllun blaðsins hefur snúið að símanúmeri.

Fyrrverandi eiginkona Páls sögð hafa stolið síma Páls og skilið eftir eins síma með nánast sama símanúmeri og Páll er með. Ýjað hefur verið að því að RÚV hafi viljandi keypt númer líkt númeri Páls á sama tíma og honum var byrlað til að hann yrði ekki var við að hann væri með rangan síma. Sú meinta byrlun á að hafa átt sér stað árið 2021.

Nú hefur Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sett fram gögn þess efnis sem sýnir fram á RÚV hefur verið með þetta símanúmer í sinni umsjá síðan 2018. Morgunblaðið þurfti í framhaldi þess að biðjast afsökunar á umfjöllun sinni um málið.

„Ókey, þannig að lykilatriði í samsæriskenningunni um byrlunarmál skipstjórans er fallið. Í ljós kom að um var að ræða tilviljun – vissulega mjög ótrúlega tilviljun en þær gerast líka í heiminum,“ skrifaði Stefán sagnfræðingur á Facebook í gær.

Stefán Einar var ekki sáttur með innlegg nafna síns í þessa umræðu.

„Fyrirgefðu hr. sagnfræðingur, en málið snýst um heimild manna til að brjótast inn hjá fólki og gramsa í einkagögnum þess. Finnst þér augljóst að rustar í nafni RÚV hafi heimild til þess? Má ég brjótast inn hjá þér eða öðrum stjórnmálamönnum og gera það ef einhver segir mér að þú hafir misjafnt í hyggju?“ ritaði fjölmiðlamaðurinn við færslu Stefáns.

- Auglýsing -

Sterk vísbending

Í framhaldi þess skrifaði varaborgarfulltrúi langa athugasemd til að skýra mál sitt betur.

„Bara til að skýra málið betur (einkum úr því að hvassyrtur frændi minn er farinn að taka sér frí frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins til að blanda sér hér í umræður): ég er ekki að halda því fram að það séu engin álitaefni í þessu máli. Það er hægt að ræða það vel og lengi hver séu mörkin varðandi það hver aðkoma blaðamanna megi/eigi að vera þegar kemur að því þegar gagna er aflað með stuldi. Blaðamenn vinna oft með gögn sem þeir mega vita að gætu verið illa fengin – flestir líta þó svo á að það skipti máli hvert frumkvæði þeirra var í því efni.

- Auglýsing -

Upplýsingarnar um að símanúmerið sé eldra og að furðuleg tilviljun hafi ráðið því að sími með þetta númer hafi komið við sögu í gagnayfirfærslunni eru hins vegar mikilvægar. Því það var einmitt sá þáttur í skrifum Páls [Vilhjálmssonar, inn­skot blaðamanns] í málinu sem maður hnaut sérstaklega um. Ef starfsmaður sjónvarpsins hefði farið og gagngert valið þetta keimlíka símanúmer í aðdraganda símastuldarins, þá hefði það vissulega verið gríðarlega sterk vísbending um að um þaulskipulagt plott hefði verið að ræða. Ég held að við getum öll verið sammála um að það er eðlismunur á því að eiga við síma sem mann ætti að geta grunað að sé tekinn í óleyfi eða því að leggja á ráðin um byrlun. Þess vegna var svo mikilvægt að fá fram þessar upplýsingar.“

„Hin rjúkandi byssa“

Auðvitað þurfti Stefán Einar að svara þessari athugasemd en hann hélt því fram að hvergi hafi verið haldið fram að starfsmenn RÚV hafi komið nálægt meintri byrlun Páls og ekkert í gögnunum styðji slíka kenningu. „Hitt er svo annað mál að eiginkonan, sem játaði byrlunina hefur einnig bent á blaðamennina. En einn þeirra amk hefur sagt hana segja ósatt. Hverjum á að trúa í því þegar gögnin liggja fyrir sem sýna hversu flækt þetta sama fólk var inn í málið, átti margháttuðum samskiptum við konuna og var meðal annars að krukka í símtækinu hennar í aðdraganda þess að hún mætti til fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu?“ hélt hann svo áfram.

Stefán Pálsson viðurkenndi í framhaldinu að hann hafi ekki kynnt sér umfjöllun Morgunblaðsins og væri aðallega að byggja sitt mál tímalínu sem bloggarinn Páll Vilhjálmsson hefur sett fram.

„Af þeirri tímalínu sem Páll Vilhjálmsson hafði dregið upp á vef sínum (ég viðurkenni að hafa ekki plægt mig í gegnum umfjöllun Moggans) mátti helst ætla að starfsmenn RÚV hafi beinlínis gert ráðstafanir til að leyna ummerkjum um símaþjófnaðinn áður en hann fór fram, sem hefði verið augljós vísbending um þátt þeirra í að skipuleggja atburðarásina. Valið á símanúmerinu var í skrifum Páls „hin rjúkandi byssa“ og það hljómaði sannast sagna nokkuð sannfærandi.“

„Þú dregur nú varla samasemmerki á milli umfjöllunar okkar (sem þú að sjálfsögðu hefur lesið spjaldanna á milli þótt þú getir ekki viðurkennt það) og síðan bloggfærslna Páls Vilhjálmssonar?“ skrifaði Stefán Einar að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -