Aganefnd KSÍ úrskurðaði í gær knattspyrnumanninn Ibrahima Balde, sem gekk til liðs við Þór í vetur, í þriggja leikja bann.
Samkvæmt Akureyri.net nær bannið aðeins til leikja í Lengjubikarkeppninni en bannið er vegna „ofsalegrar framkomu“, líkt og segir í gögnum KSÍ en Balde gerði sér lítið fyrir og skallaði leikmann ÍR í andlitið í 1:0 sigri Þórs í Lengjubikarkeppninni um helgina.
Balde, 28 ára, er miðjumaður sem leikið hefur á Íslandi síðastliðin tvö ár, fyrst með Vestra í Lengjudeildinni 2023 og svo í Bestu Deildinni í fyrra. Þar á undan hafði hann leikið á Spáni en hann er frá Senegal.