Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST), undirbýr nú stefnu á hendur fyrirtækinu Móglí ehf. á Eskifirði, vegna afar olíumengaðra lóða fyrirtækisins við sjávarsíðuna í bænum.
Undanfarna fjóra mánuði hefur Móglí ehf. sætt dagsektum vegna olíumengaðra lóða við sjávarsíðuna á Eskifirði en heildarsektin er komin upp í tæpar 2,5 milljónir króna. Forráðamaður fyrirtækisins hefur hundsað ítrekaðar kröfur um umbætur og ekki sýnt nein viðbrögð við dagsektum.
Austurfrétt segir frá því að HAUST undirbúi nú að stefna fyrirtækinu fyrir dómi en Lára Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri eftirlitsins, segir að nú sé verið að leggja drög að stefnu á hendur eigandanum, Stefáni Birgi Guðfinnssyni. Frá 1. nóvember hafa dagsektir verið lagðar á fyrirtækið, upp á 20 þúsund krónur dag hvern en sektirnar hafa haft nánast engin áhrif til batnaðar.
Um er að ræða olíumengaðan jarðveg á lóðunum að Strandgötu 59 og 61 á Eskifirði en þær standa við sjávarsíðuna, sem þýðir að olíumengaður jarðvegurinn geti að lokum komist alla leið til sjávar ef ekkert verður aðhafst. Aukreitis hafa kröfur HAUST snúið að því að tveir húsageymar á umræddum lóðum verði fjarlægðir og þeim fargað.