Ársæll Már Arnarsson segir að umræða um ofþyngd og offitu hafi mögulega verið ýkt á undanförnum árum.
„Það er búið að tala mikið um þessa þyngdaraukningu í mörg ár og hugsanlega verið gert aðeins of mikið úr þessu. Það er töluvert langt síðan að rannsóknir fóru að sýna að þessi þyngdaraukning barna og unglinga var að ná hámarki fyrir nokkrum árum og það sama á við um fullorðna einstaklinga.
Þessi offitufaraldur sem talað var um á sínum tíma er ekki eins og hann hefur verið teiknaður upp í opinberri umræðu og í fjölmiðlum. Það varð vissulega ákveðin aukning á tímabili en sú aukning er að mestu leyti komin fram og hefur ekki hækkað undanfarin ár.“
„Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem er í yfirþyngd getur verið heilbrigðara en fólk sem er í undirþyngd.“
Hann bendir á að vissulega sé áhyggjuefni að offita tengist ýmsum alvarlegum sjúkdómum. „Það er líka mikilvægt að gera greinarmun á ofþyngd og offitu. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem er í yfirþyngd getur verið heilbrigðara en fólk sem er í undirþyngd og átt við færri sjúkdóma að stríða. Þegar allt kemur til alls þá erum við mörg sem teljumst vera rétt yfir kjörþyngd,“ segir Ársæll.