Þrjú banaslys hafa orðið í umferðinni á Íslandi síðustu fjóra daga.
Samkvæmt lögreglunni á Austurlandi var einn úrskurðaður látinn á vettvangi eftir umferðarslys á Austurlandi í dag en þrír voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Reykjavík.
Klukkan 11:45 barst tilkynning um umferðarslys á þjóðvegi 1 milli Breiðdalsvíkur og Djúpavogs.
„Strax var ljóst að um alvarlegt slys væri um að ræða og var allt tiltækt lið lögreglu sent á staðinn, sjúkralið í Fjarðabyggð auk tækjabifreiða frá Djúpavogi og úr Fjarðabyggð,“ segir í tilkynningu lögreglunnar. Þá voru tvær þyrlur Gæslunnar sendar á vettvang auk sjúkraflugvéla sem sendar voru austur á land.
Búast má við að vegurinn verði lokaður fram á kvöld, þar sem rannsókn lögreglunnar stendur enn yfir á vettvangi en rannsóknin er framkvæmd af rannsóknardeild lögreglustjórans á Austurlandi ásamt rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Þá tilkynnti lögreglan á Vesturlandi í dag að barn á öðru ári hefði látist í umferðaslysi á gatnamótum Vesturlandsvegar og Vestfjarðarvegar í Borgarfirði á fimmtudaginn. Í því slysi rákust fólksbíll og hópferðabíll saman en um 20 manns var í rútunni en þrír í fólksbílnum. Var þyrla Gæslunnar kölluð út en aðrir slösuðust ekki alvarlega.
Í dag var svo gerint frá því að ökumaður jeppabifreiðar hefði látist í árekstri er varð á milli tveggja bíla í Hrunavegi nærri Flúðum en rannsókn slyssins er á frumstigi.