Tíðni ofþyngdar hjá íslenskum grunnskólabörnum hefur farið lækkandi síðustu ár. Prófessor segir vitundarvakningu um heilsu hafa skilað árangi
Valdís Bjarnadóttir og Sólveig Jakobsdóttir útskrifuðust með BS-gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands í vor. Í lokaverkefni sínu skoðuðu þær ofþyngd grunnskólabarna í 6. bekk, 8. bekk og 10. bekk á Íslandi út frá íslenskum hluta fjölþjóðlegu könnunarinnar Heilsa og líðan skólabarna (HBSC) sem er gerð á fjögurra ára fresti í yfir fjörutíu löndum. Í ritgerðinni voru sex mismunandi bakgrunnsbreytur skoðaðar út frá félagslegum þáttum íslenskra barna og unglinga og bornar saman við nýjustu tölur úr könnun HBSC á Íslandi frá árunum 2017 og 2018.
Niðurstöður sýndu m.a. að 15,6% íslenskra grunnskólabarna í 6., 8. og 10. bekk voru skilgreind í ofþyngd. Til samanburðar sýna gögn að 23,7% barna í 4. bekk grunnskóla voru talin vera í ofþyngd árið 2012. Út frá niðurstöðum HBSC á Íslandi, eykst tíðni barna í ofþyngd með aldri og því má áætla að tíðni barna í 6., 8., og 10. bekk hafi verið svipuð eða hærri en 23,7% árið 2012. Það bendir því flest til þess að tíðni ofþyngdar hjá grunnskólabörnum fari lækkandi.
Ársæll Már Arnarsson prófessor stýrir HBSC á Íslandi og í samtali við Mannlíf segir hann að hið opinbera og skólakerfið í heild hafi tekið við sér á undanförnum árum og stuðlað að aukinni fræðslu og heilsueflingu. „Við erum farin að sjá heilsueflandi samfélög, heilsueflandi skóla og leiksskóla. Það hefur orðið vitundarvakning í samfélaginu um það í hverju heilbrigði felst,“ segir hann en bætir við að mikilvægt sé að halda því til haga að þyngd er aðeins lítill hluti af heilbrigði.
„Það getur valdið miklu verra heilsutjóni að stunda alls konar óheilbrigðar megrunaraðferðir en að vera einhverjum nokkrum kílóum í yfirþyngd.“
„Okkar rannsóknir hafa til dæmis sýnt að sérstaklega unglingsstelpur hafa mjög neikvæða líkamsmynd og margar hverjar sem ekki eru í neinni yfirþyngd nota mjög óheilbrigðar aðferðir til þess að viðhalda þyngd. Það er eitthvað sem ég hef til lengri tíma meiri áhyggjur af en ofþyngd. Það getur valdið miklu verra heilsutjóni að stunda alls konar óheilbrigðar megrunaraðferðir en að vera einhverjum nokkrum kílóum í yfirþyngd.“
Megrunarkúrar varasamir
Ársæll bendir enn fremur á að langtímarannsóknir frá Svíþjóð sýni að því oftar sem unglingsstelpur fara í megrunarkúra, þeim mun þyngri verða þær. „Augljóslega eru þungar stelpur meira í megrun. Ef fylgst er með hópi stelpna í langan tíma og byrjað á ákveðnum þyngdarpunkti kemur í ljós að þeim mun oftar sem þær fara í megrun þeim mun meira þyngjast þær,“ útskýrir Ársæll.
Aðspurður hvers vegna líkaminn bregðist þannig við megrunarkúrum segir hann að það hafi með erfðaefni okkar að gera.
„Það er af því að líkami okkar elskar fitu. Fita er frábær leið til að geyma orkuforða og þessi eiginleiki að geta bætt á sig fitu til að eiga fyrir mögru tímabilin hefur þjónað okkur alla þróunarsöguna. Nú er einfaldlega vandamálið að síðustu áratugi hafa ekki verið nein mögur tímabil, þannig að fitan hefur bara safnast á okkur. Þegar maður er að fara í megrunarkúra þá segir maður öllum sínum erfðafræðiforritum stríð á hendur, það auðvitað gengur ekki upp. Líkaminn lækkar bara brennsluhraðann og svo segir hann við þig að gefast upp hreinlega. Auk þess borðar fólk sem stundar megrunarkúra mun verr en þeir sem halda sínu striki. Eins og ég segi, líkaminn elskar fitu, það er fátt sem honum þykir vænna um.“