Ekkert bendir til þess að draga muni úr átökunum á milli þeirra afla sem takast nú á um sál Sjálfstæðisflokksins og ef ekki tekst að slíðra sverðin fyrir næsta landsfund, sem er áætlaður í byrjun næsta árs, verður óumflýjanlegt að þar komi til uppgjörs. Átökin birtast meðal annars í skrifum flokksforystunnar og þeirra sem gagrýna flokkinn opinberlega.
Síðustu árin hefur flokksforysta Sjálfstæðisflokksins legið undir stanslausri gagnrýni annars vegar frá þeim sem telja flokkinn of íhaldssaman og hins vegar frá þeim sem telja hann ekki nægilega íhaldssaman. Davíð Oddson, ritstjóri Morgunblaðsins, sem hefur sögulega ætíð gengið í takt með Sjálfstæðisflokknum, hefur til að mynda gagnrýnt forystumenn Sjálfstæðisflokksins í ritstjórnarskrifum og síðustu ár virðist stjórnmálaleg samleið hans vera fyrst og fremst með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og þeim flokkum sem hann stýrir hverju sinni. Inntak þeirrar hugmyndafræði er tortryggni gagnvart alþjóðasamstarfi grundvölluð á fullveldisrökum, þjóðerniskennd, gagnrýni á kerfisvæðingu stjórnmála og krafa um að völd verði í auknum mæli færð aftur til kjörinna stjórnmálamanna og andstaða við aukið frjálslyndi í lögum landsins sem hefur það markmið að auka réttindi afmarkaðra hópa. Davíð er ekki einn um að hafa þessa skoðun. Hann er þvert á móti birtingarmynd hóps manna innan flokksins sem telur hann hafa villst verulega af leið í sinni pólitík.
Grein Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins og fjármálaráðherra á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins í maí, sem birtist í Fréttablaðinu, fjallaði meðal annars um hvert flokkurinn stefnir. „Til framtíðar er það í okkar höndum hvernig fylgið þróast. Við getum náð fyrri styrk en við megum ekki gefa okkur í eina mínútu að við eigum einhvern tiltekinn stuðning vísan.“
Bjarni fjallaði bæði um meinta íhaldssemi Sjálfstæðisflokksins og svaraði gagnrýni á skort hans á alþjóðahyggju í grein sinni. Þar kom skýrt fram að Bjarni sjálfur telur flokkinn ekki afturhalds- eða kyrrstöðuflokk eins og sumir gagnrýnendur hans sem gengu til liðs við Viðreisn telja hann vera. „Stjórnmálaflokkur sem er á flótta undan samtíðinni, hræðist breytingar, forðast nýja hugsun og hleypur undan áskorunum framtíðarinnar, mun visna upp. Slíkur stjórnmálaflokkur hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið. Þvert á móti. […] Afstaða okkar sjálfstæðismanna til alþjóðlegrar samvinnu hefur alltaf verið skýr og einörð. Við höfum staðið vörð um fullveldið og nýtt þá möguleika sem sjálfstæðið gefur okkur í alþjóðlegu samstarfi.“
Í því umróti breytinga sem stjórnmálalandslagið hefur upplifað undanfarinn áratug skipti miklu máli að „þeir flokkar sem eiga djúpar rætur í sögu þjóðar og breiðan hóp fylgismanna standi í fæturna, en feykist ekki undan í örvæntingarfullri leit að vinsældum.“
Ljóst er þó að Sjálfstæðisflokkurinn stendur frammi fyrir áskorun við að ná til yngri kjósenda. Samkvæmt gögnum frá MMR eru einungis 19,9 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn undir þrítugu. Eini flokkurinn sem er með lægra hlutfall kjósenda í þeim aldursflokki er Miðflokkurinn, en 18,5 prósent kjósenda hans eru 18-29 ára.
Hægt er að lesa um málið í fréttaskýringu Kjarnans á kjarninn.is og í nýjasta tölublaði Mannlífs.