Mánaðarlegt áskriftarverð á tveimur verðflokkum af þremur hjá streymisveitunni Netflix hækkar frá og með morgundeginum og verður hækkunin innifalin í næsta gjalddaga áskrifenda.
Verðflokka eru þrír og kallast Basic, Standard og Premium, og verður verðið á þeim fyrsta, Basic, óbreytt – eða 7,99 evrur á mánuði (1134 krónur miðað við gengi dagsins). Sú áskriftarleið dugar bara fyrir eitt tæki en Standard áskriftarleiðin er fyrir tvö tæki og hækkar um eina evru – úr 10,99 evrum í 11,99 evrur og Premium (fyrir fjögur tæki) hækkar upp í 15,99 evrur.
Hækkanirnar eru sagðar mega rekja til aukinna umsvifa efnisveitunnar sem á undanförnum árum hefur aukið töluvert kostnaðarfulla framleiðslu og með-framleiðsu á kvikmyndum sem og sjónvarpsþáttaröðum.
Í könnun sem Gallup gerði fyrir Félag Rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) snemma árs 2017 kom fram að 44% heimila landsins eru með áskrift að Netflix.