Gríðarleg réttarbót fyrir trans og intersex fólk samþykkt á Alþingi í gær.
Ein mesta réttarbót sem snýr að friðhelgi einkalífsins var í gær afgreidd sem lög frá Alþingi, þegar 45 þingmenn samþykktu lög um kynrænt sjálfsræði. Ljóst er að mikil samstaða var um málið á þinginu, þar sem þingmenn allra flokka – nema Miðflokksins – veittu málinu brautargengi.
Nýju lögin gera öllum einstaklingum kleift að skilgreina sjálfir kyn sitt, krefjast viðurkenningar opinberra og einkaaðila á kyni sínu, kynvitund og kyntjáningu. Í lögunum er líka kveðið á um rétt einstaklinga, til þess að krefjast þess að vera hvorki skilgreindir sem karlar eða konur – nú geta einstaklingar jafnframt krafist þess að skráning kyns þeirra sé hlutlaus. Í slíkum tilfellum er kyn viðkomandi t.d. í vegabréfum einfaldlega skráð sem „X“.
Framvegis verða allir einka- og opinberir aðilar að gefa fólki kost á því að skrá kyn sitt sem X, í kjölfar opinberrar breytingar þar um (að loknum skömmum aðlögunartíma). Þeir sem óska eftir breytingunni með formlegum hætti snúa sér til Þjóðskrár Íslands, sem gerir þá breytingu á kynskráningu viðkomandi í opinberum skrám. Þeir einstaklingar, sem kjósa að láta leiðrétta kyn sitt eiga þá líka rétt á því að fá endurútgefin t.d. prófskírteini frá skólum, með breyttu nafni sem viðkomandi framkvæmir samhliða breytingunni. Einstaklingar ráða því jafnframt sjálfir hvort þeir taki eignarfallsendingu föður eða móður (sleppi þá -son eða -dóttir í eftirnafninu sínu) eða skipti út -son eða -dóttir fyrir endinguna -bur.
Það er ljóst að engin leikur sér að því að láta leiðrétta kyn sitt eða breyta skráningu á kyni. Kyn hvers einstaklings er einn helsti skilgreinarþáttur nokkurs einstaklings á sjálfum sér. Að þurfa að burðast með þann böggul, að upplifa að manni hafi verið úthlutað röngu kyni í fæðingu, er vafalítið afar erfitt. Með því að færa fólki þetta frelsi, er því stigið gríðarstórt framfararskref og persónufrelsi allra aukið gríðarlega.
Einhverjir kunna vafalítið að velta því fyrir sér, hvernig þessi lagabreyting snýr að friðhelgi einkalífsins. Jú, eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins, sem nú er orðið að lögum, felst í friðhelgi einkalífsins réttur til þess að ráða yfir lífi sínu, líkamanum, lífsháttum og einkahögum. Það, hvort einhver kjósi að skilgreina sig sem karl, konu eða eitthvað annað, varðar ákkúrat ekki nokkurn annan einstakling. Nýju lögin staðfesta þetta og loka á að gerðar séu strangar kröfur til einstaklinga þess efnis, að þeir hafi gengið í gegnum t.d. lyfjameðferð eða „lifað sem“ það kyn sem helst kjósa sér í einhvern tíma, áður en orðið getur að breytingunni. Þessi réttindi flútta því afar vel við ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um sama efni, sem og alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Ísland hefur staðfest að þjóðarrétti og jafnvel innleitt í lög, s.s. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Það segir sig sjálft, að einstaklingum á að vera heimilt að gera allt sem þeir vilja, svo framarlega sem það hefur ekki neikvæð áhrif á þriðja aðila. Þessi nýju lög eru dæmi um réttarbót sem bætir bara lífsgæði einstaklinga, en hefur ómögulega slæm áhrif á nokkurn mann. Því fagna allir góðir og réttsýnir menn, konur og annað fólk.
Ómar R. Valdimarsson lögmaður