„Jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð hérna á Íslandi,” segir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, í samtali við Fréttablaðið. Í dag er Kvenréttindadagur íslenskra kvenna haldinn hátíðlegur víða um land.
„Núna höfum við setið í rúman áratug á toppnum hjá lista Alþjóðlegu efnahagsstofunni um jafnrétti í heiminum og meira að segja sá listi telur að við höfum bara nnáð 85% jafnrétti,” segir Brynhildur og bætir við: „Það er ekki jafnrétti, það er ójafnrétti.”
„Þessir dagar eru mikilvægir vegna þess að við erum ekki bara að fagna þeim sigrum sem hafa áunnist heldur einnig að minnast þeirra baráttukvenna sem unnu þessa sigra fyrir okkur.” Brynhildur vekur athygli á þeim sigri sem náðist þegar konur á Íslandi fengu kosningarétt en í dag er fagnað 104 ára kosningarétti. „Það líf sem við lifum í dag og það samfélag sem við lifum í í dag væri ekki til staðar nema fyrir þessar konur sem lögðu allt í sölurnar til þess að ná þessum réttindum fyrir okkur.”
„Konur og karlar hafa barist kröftuglega fyrir þeim réttindum sem þegar hafa áunnist en nú er nauðsynlegt að við höldum áfram til að almennt jafnrétti náist á Íslandi.”