„Í gær komst einhver karldómari við héraðsdóm Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að fjögurra ára gömul tjáning mín á Facebook skyldi teljast dauð og ómerk.” Þetta skrifar Hildur á Facebook síðu sinni í kjölfar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur vegna ummæla Hildar um Hlíðarmálið, svokallaða.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur gert Hildi Lilliendahl Viggósdóttur að greiða tveimur mönnum miskabætur vegna ummæla sem hún lét falla haustið 2015. Þá hafa ummælin verið dæmd dauð og ómerk.
Í dómnum segir að eftirfarandi ummæli skuli vera dauð og ómerk: „… þá gríðarlega alvarlegu aðför lögreglunnar að öryggi kvenna í Reykjavík að láta eiga sig að fara fram á gæsluvarðhald yfir körlum sem nauðga konum SAMAN svo yfirdrifið kerfisbundið að þeir hafa til þess sérútbúna íbúð.“
Hildur furðar sig á niðurstöðu Héraðsdóms þar sem henni er gert að greiða mönnunum tveimur bætur: „Jafnframt ákvað hann að ég skyldi greiða hvorum þessara manna fyrir sig 150.000 krónur fyrir einhvern miska og ofan á það skyldi ég greiða 600.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð,” skrifar hún og bætir við: „Svo á ég líka, held ég, að greiða dráttarvexti yfir tveggja og hálfs árs tímabil, frá því að mér var hótað stefnu og þar til mér var stefnt.„
„Forsendur þessa alls eru mjög furðulegar og ég er frekar ringluð. Ég er rétt að byrja að melta þetta allt saman og veit ekki alveg hvernig mér líður. Allavega á ég að borga einhverju fólki milljón fyrir eitthvað sem ég skil ekki alveg.”
Málið má rekja til forsíðufréttar Fréttablaðsins „Íbúðin var útbúin til nauðgana.“. Greinin ýtti af stað atburðarrás þar sem íbúar hennar, mennirnir sem Hildi var gert að greiða bætur, voru stimplaðir kynferðisbrotamenn.
https://www.mannlif.is/4369