Framsóknarflokkurinn hefur stýrt félagsmálaráðuneytinu í 17 ár, frá árinu 1997. Fjölmargir aðilar tengdir flokknum gegna trúnaðarstörfum fyrir ráðuneytið.
Í samtali við Kjarnann segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra að þegar um er að ræða nefndir, ráð og hópa á vegum ráðuneytisins sem taka stefnumótandi ákvarðanir sem tengjast pólitík þá séu formenn nefndanna pólitískt skipaðir. „Þegar pólitískar nefndir eru skipaðar þá er horft til þess að skipa þær pólitískt, það er ekkert óeðlilegt við það,“ segir Ásmundur Einar.
Hann segir aftur á móti að þegar um er að ræða nefndir sem ekki marka pólitíska stefnu þá séu þær yfirleitt skipaðar embættismönnum. Aðspurður segist hann þó ekki vita í fljótu bragði hversu margar nefndir af þeim 70 sem eru á vegum ráðuneytisins séu svokallaðar pólitískar nefndir en sagði jafnframt að hægt væri að fara yfir það ef þess væri óskað.
Stefna að auknu gagnsæi í allri stjórnsýslunni
Í ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir að í nýrri ríkisstjórn munu flokkar sem spanna „hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri“ freista þess að slá nýjan tón, einhenda sér í þau lykilverkefni sem koma Íslandi í fremstu röð og búa þannig um hnútana að hér verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna.
„Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum. Það er vilji flokkanna sem nú taka þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess,“ segir í sáttmálanum.
Enn fremur er tekið fram að stefna þurfi að stöðugleika til lengri tíma og auka gagnsæi í athafnalífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja, fjármálalífi, stjórnmálum og stofnunum samfélagsins. „Frá efnahagshruninu hefur náðst margvíslegur árangur en enn skortir á þá félagslegu sátt sem þjóðin hefur lengi kallað eftir. Að henni þarf að vinna.“
Í nýlegri könnun MMR frá 3. maí 2019 um hvað veldur landsmönnum mestum áhyggjum kom fram að líkt og síðustu þrjú ár voru það spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum sem reyndist vera eitt af helstu áhyggjuvöldum þjóðarinnar. Alls svöruðu 44 prósent landsmanna að spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum valdi þeim mestum áhyggjum í síðustu könnun.