Þorsteinn Einarsson í Hjálmum segir í viðtali sem birtist í Mannlífi á föstudaginn hafa orðið fyrir vitundarvakninu eftir að hafa verið rekinn úr skóla í Svíðþjóð vegna neyslu. Hann flutti heim, fór að vinna í leikskólanum Sælukoti og tók upp það sem hann kallar hreinlifnað.
„Það hentaði mér því vel að vinna á Sælukoti. Það fylgir því ákveðin menning að vinna þar, þarna er grænmetisfæði og hugleiðsla höfð í öndvegi og ég var alvarlega að íhuga að gerast munkur innan þessarar hreyfingar. Var búinn að vera að spila með einhverjum böndum úti í Svíþjóð og fannst ég vera búinn að vera að harka lengi án árangurs þannig að það væri best að fara bara í munkinn,“ segir Þorsteinn.
„En á sama tíma þá var ég búinn að kynnast gaurum í Keflavík í gegnum vin minn Kristin Snæ, sem ég sé núna að hefur reynst örlagavaldur í mínu lífi, sá hinn sami og ég flutti með til Svíþjóðar. Það má í raun segja að það hafi verið Kristni Snæ að þakka að Hjálmar urðu til vegna þess að þetta voru strákar sem hann svona dró saman til þess að fara að leika sér í tónlist. Við fórum að spila saman og allt í einu vorum við bara byrjaðir að taka upp plötu. Það var fyrsta plata Hjálma, hún kom út 2004 og gekk nægilega vel til þess að við höfðum heilmikið að gera við að spila. Okkur fannst auðvitað að við værum búnir að sigra heiminn,“ segir Þorsteinn og brosir út í annað.
„Þarna var tónlistin aftur orðin að leiðandi afli í mínu lífi og hefur verið það alla daga síðan. Á þessum tíma kynntist ég líka Sigríði Eyþórsdóttur og við fórum að eignast börn og þar með var munkahugmyndin endanlega út úr myndinni,“ segir Þorsteinn hlæjandi og bætir við að lífið hafi einfaldlega tekið hann í hina áttina. „Ég kynntist Sigríði í árslok 2004 og við fórum að vera saman í upphafi næsta árs. Við eignuðumst tvö yndisleg börn og það var nóg að gera í tónlistinni og lífið bara ljómandi gott.“
Viðtalið í heild sinni má lesa hér á man.is.