Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Rekinn úr skólanum vegna neyslu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorsteinn Einarsson, tónlistarmaður í hljómsveitinni Hjálmum, var rekinn úr tónlistarskóla í Svíþjóð. Eftir það hélt hann ásamt vini sínum suður á bóginn þar sem þeir höfðu í sig og á með því að spila tónlist. Stefnan var sett á Afríku en heiftarlegur sólstingur kom í veg fyrir þær áætlanir.

Þetta kemur fram í ítarlegu forsíðuviðtali Mannlífs þar sem Þorsteinn ræðir tónlistina og báráttu sína við neyslu og þunglyndi. 18 ára gamall hélt Þorsteinn í tónlistarskóla í Svíþjóð og gekk það eins og í sögu framan af, en síðar tók skemmtanalífið yfir.

Þorsteinn segir að auk þess að sækja skólann hafi hann ásamt vinum sínum líka verið að spila á minni stöðum bæjarins og að það hafi verið góð reynsla. „Þetta var hálfútópísk reynsla fyrir mig að vera í þessum skóla því þarna var sérhæfð jazztónlistarbraut sem var með frábæra kennara og allt til alls. Ég ætlaði mér að verða jazzgítarleikari og lærði margt þarna.“

Eftir að hafa verið kominn í neyslu og vesen með sjálfan sig hérna heima fannst Þorsteini gott að koma til Svíþjóðar og einbeita sér að tónlistinni. Hann segir að fyrst um sinn hafi gengið vel að halda sig frá öllu slíku þarna úti. „Lengi vel þá gekk það ljómandi vel en svo rataði ég inn í neyslu aftur og tók hana þá með talsverðum trukki illu heilli. Mér meira að segja tókst að láta reka mig úr skólanum stuttu áður en ég lauk námi. Það var einfaldlega vegna neyslu og fylgifiska hennar sem kom mér í þá stöðu. Ég mætti illa og svo þegar ég mætti þá var ég kannski einfaldlega ekki í lagi. Ég mundi svo sannarlega gera þetta öðruvísi ef ég fengi að gera þetta núna,“ segir Þorsteinn og hlær við tilhugsunina.

„Lengi vel þá gekk það ljómandi vel en svo rataði ég inn í neyslu aftur og tók hana þá með talsverðum trukki illu heilli.“

Hann bætir við að í kjölfarið hafi komið afskaplega ævintýralegur tími í hans lífi. „Um sumarið, eftir að mér tókst að láta reka mig úr skólanum, fór ég með góðum vini mínum að ferðast um Evrópu og spila á götunni. Fórum tveir að „böska“ eins og að er kallað. Þessi vinur minn er því miður fallinn frá en hann hét Andreas og var alltaf kallaður Gúrkan. Það festist við hann vegna þess að hann var dálítið sérstakur í útliti, var langur og mjór með hárið allt rakað að undanskyldu dread-lokkum sem spruttu upp úr miðju höfðinu og minntu á sprota á agúrku. Þessi strákur var alveg einstakur. Hann var gríðarlega hæfileikaríkur tónlistarmaður; gítarsnillingur, lagasmiður og söngvari, það lék allt í höndunum á honum. Að auki þá var hann líka einstaklega gefandi og yndisleg manneskja. Svona gaur sem var alltaf gott að hafa við hlið sér, ég sakna hans mikið.“

Svaf á garðbekkjum

Þorsteinn segir að þeir félagar hafi um þetta sumar ferðast um Evrópu þvera og endilanga og lent í allskyns ævintýrum. „Við vorum misvel efnaðir á þessu ferðalagi þannig að oft sváfum við bara á garðbekkjum eða undir runna og venjulega var það allt í lagi. Við vorum að stefna suður eftir álfunni og ætluðum okkur að halda áfram alla leið til Afríku. Vorum komnir til Gíbraltar og frekar svona þreyttir og slæpptir og gerðum þau mistök að leggja okkur aðeins á ströndinni. Það var glampandi sól og hiti og við ætluðum bara rétt aðeins að pústa en sofnuðum.

- Auglýsing -

Þegar við vöknuðum vorum við komnir með alveg heiftarlegan sólsting sem getur verið mjög hættulegt. Ég slapp samt betur, brann þó nokkuð illa og var aðeins ringlaður en Andreas varð alveg fárveikur svo ekki sé meira sagt. Þannig að það var ekkert annað í stöðunni en að reyna að koma okkur til baka. Við hefðum kannski átt að koma okkur á næsta sjúkrahús en gerðum það samt ekki heldur tókum stefnuna á London. Þar átti ég vini og treysti á að þeir gætu svona eitthvað hjálpað okkur. Við vorum þó ekki komnir nema til Barcelona þegar við vorum rændir og þá fóru málin að flækjast. Okkur tókst þó að komast til Parísar og þar fékk ég útgefið bráðabirgðavegabréf og þaðan gátum við loks komið okkur til London en Andreas meira og minna veikur allan tímann. Þegar við komum til London gekk líka seint og illa að finna vini mína því þetta var fyrir daga Internetsins en það hafðist þó að endingu með því að leita á réttu stöðunum.“

Þorsteinn segir að þeir hafi fengið hjálp frá vinum hans í London en hann hafi þó fljótlega ákveðið að fara heim til Íslands. „Andreas varð eftir hjá þeim, fékk sér vinnu í London og var þar í svolítinn tíma. Talsvert seinna hafði hann svo samband við mig til þess að athuga hvort að ég vildi ekki koma með sér til Afríku til þess að klára ferðina. Á þeim tíma var ég kominn með vinnu á leikskólanum Sælukoti sem er rekinn af Ananda Marga, líklega var þetta 2003, og kunni vel við mig þannig að ég ákvað að sleppa ferðinni. En Andreas fór til Afríku, ferðaðist þar um nokkuð langan tíma þar til hann skyndilega veiktist og lést. Hann var ekki nema 28 ára og líklega fékk hann einhverja baktaríusýkingu sem hafði þessar ömurlegu afleiðingar.“

Allt viðtalið má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -