Bókin Það er alltaf eitthvað er samstarfsverkefni tólf ritlistarnema og fimm ritstjórnarnema við Háskóla Íslands unnið undir leiðsögn Sigþrúðar Gunnarsdóttur, ritstjóra hjá Forlaginu. Karítas Hrundar Pálsdóttir sem er að ljúka meistaranámi í ritlist í júní næstkomandi á þrjár sögur í bókinni.
„Sögurnar eru ólíkar að stíl og innihaldi. Sú fyrsta fjallar um afganska stelpu sem flyst til Íslands og þau áhrif sem það hefur á fjölskyldu hennar. Næsta fjallar um vinasamband sem tekur óvænta stefnu og þriðja um stelpu sem er gjörn á yfirlið og hvernig hún tæklar það að vera með fóbíu fyrir blóði,“ segir Karítas. „Við skrifin varð ég meðal annars fyrir innblæstri frá kúbverska rithöfundinum Ángel Santiesteban og bandaríska rithöfundinum Lauren Groff.“
Hún segir að ekki hafi vantað hugmyndir þegar kom að því að velja nafn á bókina en að endingu hafi „Það er alltaf eitthvað“ verið valið. „Þetta er eitthvað sem amma einnar í hópnum sagði gjarnan. Það er alltaf eitthvað óvænt sem kemur upp á. Verkefni hrannast upp. Og hvernig sem á það er litið er alltaf eitthvað um að vera, hvort sem það er sorglegt og gleðilegt.“
Bókin er hluti af þeirri hefð sem skapast hefur fyrir samstarfi ritlistar- og ritstjórnarnema en þetta er í sjöunda sinn sem nemendur þessara námsgreina sameina krafta sína og gefa út bók. „Þetta er aftur á móti í fyrsta sinn sem afraksturinn er gefinn út af forlagi. Una útgáfuhús, nýtt og framsækið forlag, gefur bókina út en ein af meginstefnum útgáfunnar er einmitt að gefa út verk eftir nýja höfunda,“ segir Karítas.
„Við skrif sagnanna höfðum við þemað bönd til hliðsjónar. Það var opið til túlkunar og bauð upp á ýmsa möguleika: Bönd sem geta fjötrað eða sameinað, vinabönd, fjölskyldubönd eða sambönd almennt. Það koma fyrir naglabönd og sokkabönd í sögunum og svo er ýmislegt sem fer úr böndunum.“
Útgáfuhóf vegna bókarinnar var haldið síðasta miðvikudagskvöld og þann 22. júní mun Karítas útskrifast með meistarapróf í ritlist ásamt fleirum úr hópnum. „Við erum mjög þakklát fyrir þá sem styrktu okkur svo að útgáfan gæti orðið að veruleika. Þá má helst nefna rausnarlegan styrk frá Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur – til eflingar íslenskri tungu.“
Bókin er fáanleg í öllum helstu bókabúðum og hægt að kaupa bókina í gegnum heimasíðu Unu útgáfuhúss.