Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi Katrínu Jakobsdóttur í morgun fyrir að kalla eftir því „ framsæknar hreyfingar og vinstri flokkar sameinist um að hrinda af stað róttækum, framsæknum og lýðræðislegum breytingum, pólitískum og félagslegum“ í erlendu fræðiriti en hafa sjálf myndað stjórn til hægri.
„Evrópskir vinstriflokkar deila grundvallargildum um mannlega reisn, frið, algild mannréttindi og mikilvægi félagslegrar verndar” sagði Logi í ræðu sinni og vitnaði í grein forsætisráðherra í ritinu A Vision for Europe eða Sýn fyrir Evrópu. „Á tímum loftslagsbreytinga og efnahagslegs ójöfnuðar þarf að marka djarfa, framsýna og sameinandi stefnu með áherslu á félagslegt réttlæti, kynjajafnrétti, grænt hagkerfi og alþjóðlegar kerfisbreytingar,“ skrifar Katrín og kallar eftir því að vinstriflokka sameinist um róttækar lausnir.
„Engu að síður valdi þessi sami ráðherra sjálf að mynda ríkisstjórn með íhaldssömum hægri flokkum og réttlætir í sífelldu samstarfið með því að tala um gildi málamiðlana og mikilvægi þess að skapa traust,” sagði Logi á þingi í morgun.
Logi kallaði eftir svörum frá forsætisráðherra um hvers vegna hún kaus að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokk með aðstoð Framsóknarflokks í stað stjórnar VG, Framsóknarflokks, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar. „Getur hæstvirtur ráðherra á tveimur mínútum útskýrt þann eðlismun sem er á Íslandi og öðrum Evrópulöndum og hvers vegna hún telji að það þurfi annars konar flokkasamstarf og þar með önnur stjórntæki og aðrar aðgerðir til að leysa vandamál íbúanna hér á Íslandi en annars staðar í Evrópu?”
Forsætisráðherra tók næst til máls: „Ég þakka háttvirtum þingmanni fyrir að ræða þessi grundvallarmál en ég er þó ekki sammála þeirri forsendu sem hann gefur sér í lok spurningar sinnar” sagði Katrín. „Finnst mér skipta máli að vinstri flokkar beiti sér fyrir þeim málum, hvernig sem þeir gera það, til að ná árangri fyrir almenning í landinu? Já, mér finnst það. Tala ég fyrir því erlendis? Já. Tala ég fyrir því hér heima? Já. Ég held að þetta svari spurningum háttvirtum þingmanns.”
Sakaði forsætisráðherra um útúrsnúning í svörum
Logi sneri aftur í pontuna og sakaði Katrínu um að snúa út úr spurningunum. „Væntanlega geta vinstri flokkar í Evrópu starfað að málamiðlunum með hægri flokkum þar líka, jafnvel ógeðfelldum. Ég er ekki að gagnrýna allt sem hér hefur verið gert. Ég tel að það hefði verið hægt að ganga lengra með hreinu vinstra samstarfi.”
Þá spurði hann Katrínu hvort henni finnist líklegast að ná öllu fram í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum. „Ég minni á að formaður flokksins greiddi atkvæði gegn lögum um þungunarrof kvenna á dögunum og þar að auki hefur flokkurinn lagt fram mjög ómannúðlegt frumvarp varðandi útlendingamál.” Logi bað fyrir frekari svörum frá forsætisráðherra: „Eru önnur lögmál á Íslandi en annars staðar í Evrópu? Hefði ekki verið hægt að hrinda þessum breytingum öllum með skýrari hætti fram með hreinni vinstri stjórn?”
Ekki hægt að mynda vinstri stjórn
Forsætisráðherra tók aftur til máls: „Ég er ekki sammála því að ég hafi snúið út úr spurningunni. Ég er ekki sammála því heldur, nema stærðfræðikunnáttan bregðist, að hægt hefði verið að mynda hreina vinstri stjórn eftir síðustu kosningar, a.m.k. lá fylgi þessara átta flokka ekki þannig. En háttvirtur þingmaður veit ósköp vel að okkar flokkar hafa unnið vel saman á fyrri tíð” svaraði Katrín.
„Það er eðli máls samkvæmt og auðvitað er auðveldast ef hægt er að mynda hreinar stjórnir en við verðum að horfa á árangurinn af því sem kemur út úr ríkisstjórnarsamstarfi. Þar er ég fullkomlega samkvæm sjálfri mér hvar sem ég tala” sagði hún að lokum.