Mánudagur 25. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

2400 ungmenni hér á landi ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hagstofan telur 2400 ungmenni hér á landi ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Það samsvarar 6% ungmenna á aldrinum 16 – 24 ára. Hópurinn er í áhættu vegna félagslegrar einangrunar og skort á efnislegum gæðum.

Ísland hefur, líkt og önnur ríki heimsins, sett sér það markmið eigi síðar en árið 2020, að lækka verulega hlutfall fólks á aldrinum 15-24 ára sem ekki er í vinnu, námi eða starfsþjálfun Hlutfall ungmenna á Íslandi sem ekki eru í vinnu, námi eða starfsþjálfun er með því lægsta í Evrópu

Árið 2018 var hlutfall ungmenna á Íslandi á aldrinum 16-24 ára sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Í löndum Evrópusambandsins (28 lönd ESB) voru að jafnaði 10,5% ungmenna sem voru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Samkvæmt Eurostat var þetta hlutfall um 5% á Íslandi sem var svipað og í Noregi, Hollandi og Lúxemborg. Hæst var hlutfallið í Tyrklandi, eða 24,4%, en Norður-Makedónía fylgir fast á eftir en þar var hlutfallið 24,1%. Það ber að árétta að Eurostat miðar aðeins við einstaklingsheimili á meðan Hagstofa Íslands telur einnig með þá sem búa á stofnunum. Þetta er skýringin á því að Hagstofan metur hlutfallið hærra en Eurostat.

Konur líklegri til að vera ekki í vinnu, námi eða þjálfun
Konur á aldrinum 20-34 ára eru líklegri til að vera ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun en karlar á sama aldri flest árin á tímabilinu 2003-2018. Á tímabilinu 2003-2008 mældist hlutfall þeirra sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun hærra meðal kvenna heldur en karla, eða á bilinu 3,5% – 5,6%.

Aukning í kjölfar hrunsins
Í kjölfar efnahagshrunsins jókst bæði hlutfall karla og kvenna sem stunduðu ekki atvinnu, nám eða starfsþjálfun. Á meðal karlmanna var aukningin þó meiri og því dróst munurinn á kynjunum saman. Frá árinu 2013 hefur munurinn aukist aftur milli kynjanna og er tölfræðilega marktækur frá því ári. Árið 2018 var hlutfallið 8,5% meðal kvenna og 6,4% hjá körlum. Þessi kynjamunur skýrist líklega ekki af því að ungar konur séu atvinnulausar eða stundi ekki nám í sama mæli og ungir karlar þar sem hagtölur sýna að atvinnuleysi ungra kvenna er að jafnaði lægra og skólasókn þeirra hærri en meðal karla. Munurinn gæti stafað af því að ungar konur eru frekar utan vinnumarkaðar en ungir karlar. Til dæmis gætu konur á aldrinum 20-34 ára verið líklegri til að vera í fæðingarorlofi áður en þær byrja í starfi, séu frekar öryrkjar, veikar, tímabundið ófærar til vinnu eða líklegri til að vera heimavinnandi.

Kynjamunurinn hér á landi er minni en meðaltal Evrópusambandsins. Að jafnaði eru 12,2% karlmanna í Evrópusambandinu utan bæði vinnumarkaðar og skólakerfis en 20,9% kvenna, sem er 8,7 prósentustiga munur.

Hlutfallið hækkar með aldri
Töluverður munur er á hlutfalli þeirra sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun eftir aldurshópum. Hlutfallið er lægst í aldurshópnum 16-19 ára, sem skýrist líklega af því að langflestir í þessum aldurshópi leggja stund á formlegt eða óformlegt nám. Ef aldurshópurinn 20-34 ára er borinn saman við aldurshópinn 35-64 ára þá er hlutfallið marktækt hærra meðal eldri aldurshópsins flest árin á tímabilinu 2003-2018. Óumdeilt er þó að efnahagshrunið hafði slæm áhrif á stöðu 20-34 ára einstaklinga þar sem hlutfallið jókst frá 5,6% árið 2007 upp í 13,4% árið 2010.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -