Nara Walker hlaut dóm á Íslandi fyrir ofbeldi gegn þáverandi eiginmanni sínum sem hafði beitt hana ofbeldi í áraraðir. Hún var nýlega látin laus úr fangelsi en býr hér sem réttlaus kona. Hér á eftir fer lýsing á örlagaríka kvöldinu þegar Nara fékk nóg af ofbeldinu og varðist manninum. Athugið, frásögnin er alls ekki fyrir viðkvæma.
Nara er fær um að lýsa fjölda atvika þar sem fyrrverandi eiginmaður hennar beitti hana hrottalegu ofbeldi. Alltaf gætti hann þess þó að berja hana í brjóst- og kviðarhol svo áverkarnir væru síður sýnilegir en það sem er einkum sláandi eru lýsingar hennar á því hvernig hann gætti þess að horfa í augun á henni meðan á barsmíðunum stóð. Þessi frásögn er henni allt annað en auðveld og erfiðast af öllu er að ræða kvöldið sem leiddi til þess að hún hlaut fangelsisdóm á Íslandi.
„Helgina fyrir atvikið höfðum við farið út á lífið, hittum bandarískan ferðamann, spjölluðum við hann í fimm mínútur og hann fór að fylgja mér á Instagram. Sendi mér svo skilaboð á þriðjudeginum til að forvitnast um hvað væri að gerast í bænum og ég sagði honum að Airwaves væri í gangi og fullt af tónleikum. Í framhaldinu fórum við maðurinn minn út og hittum Bandaríkjamanninn og íslenska konu sem ég leit á sem sameiginlega vinkonu okkar hjóna. Hún hafði verið að vinna með manninum mínum en mér finnst líklegt að þau hafi þá þegar átt í sambandi þegar ég var ekki á landinu og að auki snerist þeirra samband talsvert um eiturlyf og neyslu, eitthvað sem er þeirra en ekki mitt.
Við fórum á tvo bari og vorum að drekka bjór en ég tók eftir því að hún var mjög agressív gagnvart mér sem hún hafði reyndar verið um tíma. Hann ætlaðist til þess að við værum vinkonur, enda var hún alltaf heima hjá okkur, en á þeim tíma leit ég á þeirra samband sem vináttu. Hún átti eftir að ljúga fyrir rétti fyrir hann og ég hefði átt að kæra hana fyrir líkamsárás en í mínum huga var hún fyrst og fremst næsta fórnarlamb hans.
„Hann starði inn í sálina á mér. Ég hef aldrei orðið eins hrædd og ég gat ekkert gert, leið skyndilega eins og ég væri utan eigin líkama. Horfði á allt gerast eins og fluga á vegg. Síðan byrjaði hann að berja mig í brjóst og kviðarhol á meðan hann horfði í augun á mér.“
Þegar við komum aftur í íbúðina voru maðurinn minn og íslenska konan að kyssast eins og þau höfðu verið gera fyrr um kvöldið. Það angraði mig satt best að segja ekki, það finnst kannski einhverjum skrítið, en fyrir mér var það bara koss og ég var búin að ákveða að skilja við hann hvort eð var. Ég hafði svo sem séð slíka tilburði hjá honum áður, ég hef séð hann hafa kynmök við annað fólk og hef þá yfirgefið herbergið. En þarna um kvöldið brást ég þannig við að ég kyssti Bandaríkjamanninn, það var svona ég að sýna honum að ég gæti alveg hagað mér svona en svo hætti ég því til þess að verða ekki lamin og við vorum bara að spjalla.
En svo sáum við að maðurinn minn og þessi íslenska kona voru nánast farin að stunda kynlíf en í fötunum inni í stofu. Bandaríkjamaðurinn sagðist bara ætla að fara þannig að ég sagðist líka ætla að fara, vildi ekki vera hluti af þessu. Þá varð allt vitlaust.
Maðurinn minn varð brjálaður. Hann átti mig og óttaðist að ég ætlaði að fara með Bandaríkjamanninum sem ég ætlaði alls ekki að gera. Ég vildi bara ekki vera þarna.
Maðurinn minn og konan voru stöðugt að öskra á mig einhverjar svívirðingar og ég man að ég horfði á hana og furðaði mig á því af hverju hún væri að standa í þessu. Íbúðin sem við vorum í var á hæðum og á einhverjum tímapunkti stóðu maðurinn minn og Bandaríkjamaðurinn frammi á stiganum og þá skyndilega ýtti maðurinn minn honum þannig að hann kútveltist niður stigann, niður á næstu hæð. Seinna kom fram í áverkaskýrslu að hann var með alvarlega áverka eftir þetta.
Ég fríkaði út þegar ég sá þetta. Maðurinn minn hljóp á eftir honum og stóð yfir honum og hann er stór og sterkur. Ég reyndi að beina athygli hans að mér svo að hann héldi ekki áfram að meiða hann og þá komst Bandaríkjamaðurinn undan. Maðurinn minn byrjaði að hrinda mér harkalega og það kemur fram á áverkaskýrslunni að ég var með brákað rifbein og með áverka á brjósthrygg sem ég held að hafi gerst þarna. En málið er að ég var sannfærð um að nú myndi hann drepa mig.
Hann starði inn í sálina á mér. Ég hef aldrei orðið eins hrædd og ég gat ekkert gert, leið skyndilega eins og ég væri utan eigin líkama. Horfði á allt gerast eins og fluga á vegg. Síðan byrjaði hann að berja mig í brjóst og kviðarhol á meðan hann horfði í augun á mér. Að hverju var hann að leita í augunum á mér? Eigin virði?“
Færð í handjárn
„Ég gat ekki andað. Hann tók mig upp og lagði mig á sófann sem er á neðri hæðinni inni í íbúðinni sem er á tveimur hæðum. Hún var þarna líka og hann stóð yfir mér á meðan ég var að reyna að ná andanum. Það var eins og árásin væri enn í gangi með hann þarna yfir mér og allar þessar hugsanir um hvað hafði gerst. Hugsanir um að hann hefði getað drepið þennan mann. Hugsanir um að hann hefði verið að berja mig og ég myndi líklega ekki lifa þetta kvöld af. Lá bara þarna og reyndi að anda á meðan hann stóð yfir mér og hélt áfram að öskra á mig. Öskra að hann ætti mig.
Skyndilega fann ég adrenalínið flæða um mig í bylgjum og líkamann segja mér að koma mér burt. Þannig að ég stóð loksins upp og reyndi að komast fram hjá honum. Hann greip um upphandleggina á mér, hélt mér fastri og hélt áfram að öskra á mig. Hann er eflaust svona 25 sm hærri en ég og skyndilega hallaði hann sér niður að mér og þvingaði sér á mig. Það var á því augnabliki sem ég beit bút af tungunni á honum.
Ég fann aldrei fyrir tungunni á honum uppi í mér, kannski vegna þess að þau höfðu sett kókaín í drykkina okkar án minnar vitundar og það hefur víst staðdeyfandi áhrif. Ég bara brást við og líkami minn lokaðist, herptist saman, með þessum afleiðingum.
Það var eins og tíminn stæði í stað. Skyndilega rankaði ég við mér og hjartað barðist um á ógnarhraða þar sem ég lá á bakinu á gólfinu og hún sat klofvega ofan á mér öskrandi ókvæðisorð. Ég var skelfingu lostin. Þau voru tvö og bæði miklu stærri en ég. Ég reyndi að ýta henni af mér og við tókumst á. En það sem ég óttaðist mest var hvað hann mundi gera mér á meðan mér væri haldið svona fastri. Ég óttaðist að hann kæmi og kastaði mér fram af svölunum eða eitthvað þaðan af verra.
Loksins náði ég að losa mig en ég komst ekki út fram hjá þeim heldur gat hlaupið upp á efri hæðina og falið mig þar. Ég var í algjöru áfalli. Þau héldu áfram að öskra á mig en hún hringdi í lögregluna. Þegar lögreglan kom var ég grátandi og endurtók mig í sífellu sem er augljóst merki um áfall, jafnvel ég veit það, en samt var ég sett í handjárn og þau tvö færð á sjúkrahús. Ég var færð handjárnuð út í aftursæti lögreglubíls og var í haldi lögreglu að því ég held í fimmtán klukkustundir.“
Nara er í forsíðuviðtali Mannlífs sem hægt er að lesa hér.