„Ímyndum okkur hversu miklu betri heimurinn væri í dag ef að hlusta hefði verið á stjórnmálamenn sem litu til lengri framtíðar en kjörtímabil á enda.” Þetta sagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, í eldhúsdagsumræðum á alþingi. Í ræðunni vakti hann athygli á mikilvægi loftslagsmála.
„Loftslagsvandinn er ekki bara vandi framtíðarinnar heldur samtímans.” Andrés hrósaði framtakssemi yngri kynslóða í vitundarvakningu á loftslagsmálum. Hann nefndi loftslagsverkfallið sem nýjustu og mögulega öflugustu bylgjuna í vitundarvakningunni. Þá sagði hann þau vera mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda.
„Um allan heim stígur ungt fólk fram til að berjast fyrir framtíðinni, enda koma saman í loftslagsmálum öll helstu baráttumál þess réttláta samfélags sem við viljum byggja.” sagði Andrés og nefndi heilbrigði, jöfnuð, jafnrétti og frið sem dæmi. Þá bætti hann við: „Barátta gegn fátækt er ekkert án loftslagsmála.”