Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði góða samstöðu innan ríkisstjórnarinnar og fagnaði samstarfinu í eldhúsdagsumræðum á Alþingi. Hann notaði ræðuna sína til að gagnrýna ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrir fyrirætlanir um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu.
Telur hann að sú aðgerð hefði getað valdið harkalegum samdrætti ferðaþjónustu ólíkt því sem nú hefði gerst. Þar vitnaði þingmaðurinn til samdráttar í ferðaþjónustu undanfarið í kjölfarið af falli WOW air. Hann velti fyrir sér hvert svigrúmið hefði verið til að bregðast við samdrættinum ef þessar ákvarðanir hefðu gengið eftir „Ef ekki væri þetta svigrúm hefðum við verið að tala um erfiðari stöðu.“
„Það er ástæða að nefna þetta því vissulega er ekki sjálfgefið að samstarf líkt og við höfum í þessari ríkisstjórn gangi upp,” sagði hann um ríkistjórnarsamstarf VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hann sagði stjórnina hafa nýtt tímann vel og myndað gott svigrúm þar sem hagvaxtarskeið væri á enda.