Öryggismiðstöðin og S9 ehf., sem er í eigu Margrétar Ásgeirsdóttur, fyrrverandi eiginkonu Skúla Mogensen tóku þátt í skuldaútboði WOW air.
Þetta er á meðal þess sem greint er frá í WOW: ris og fall flugfélags, nýrri bók Stefáns Einars Stefánssonar, viðskiptafréttastjóra Morgunblaðsins sem kom út í dag, en eins og heitið gefur til kynna fjallar hún um dramatíska sögu flugfélagsins WOW air. Í bókinni kemur fram hverjir það voru sem skráðu sig fyrir skuldabréfum í útboðinu í haust, en samkvæmt höfundinum kom 51 prósent fjársins sem safnaðist í útboðinu frá einstaklingum og fyrirtækjum sem stóðu með einhverjum hætti nærri flugfélaginu og forstjóranum Skúla Mogensen.
Öryggismiðstöðin og S9 ehf., sem eru í eigu Margrétar Ásgeirsdóttur, fyrrverandi eiginkonu Skúla, er til að mynda þar á meðal eins og fyrr segir, en Mannlíf hefur heimildir fyrir því að Margrét hafi ekki aðeins keypt skuldabréf fyrir 1,5 milljónir evra eins og greint hefur verið frá, heldur sé upphæðin nærri 2 milljónum evra. Auk þess hafi Margrét og félög sem tengjast henni lánað viðbótarfé til reksturs félagsins.
Segir höfundurinn að flugvélaleigufyrirtækin Avolon og AirLease Corporation (ALC), flugvélaframleiðandinn Airbus, félagið Reliquum, sem er í eigu Björgólfs Thors og Arion banki, hafi einnig skráð sig fyrir skuldabréfum í útboðinu í haust.
Segir hann að listinn sem hann hafi undir höndum um þátttakendur í skuldabréfaútboðinu gefi sterkt til að kynna að helmingur fjármagnsins sem safnaðist hafi í raun runnið frá þátttakendunum til þeirra sjálfra í gegnum fléttu sem gekk út á að breyta eðli skulda félagsins úr skammtímaskuldum, sem voru sumar hverjar gjaldfallnar, í langtímaskuld í formi skuldabréfs. Þannig hafi í raun takmarkaður hluti fjármunanna sem söfnuðust skilað sér til félagsins sem nýtt rekstrarfé.
Sjá einnig: Þrjár milljónr evra frá Björgólfi Thor í WOW air