Innflytjendur eru rétt tæpur fimmtungur af starfandi einstaklingum á Íslandi. Starfandi innflytjendur á aldrinum 16-74 ára voru að jafnaði 36.844 á fyrsta ársfjórðungi 2019. Hlutfall starfandi innflytjenda fer vaxandi á öllum landshlutum.
Hagstofan birti uppfærða tölur í morgun um fjölda stafandi á vinnumarkaði. „Þegar horft er til búsetu kemur í ljós að á fyrsta ársfjórðungi 2019 voru starfandi með skráð lögheimili á Íslandi að jafnaði 187.859, eða 97,7% allra starfandi. Alls höfðu 154.753 lögheimili hér á landi og einhvern íslenskan bakgrunn, eða 80,5% af öllum starfandi. Af innflytjendum voru 33.106 með lögheimili á Íslandi, eða 89,9% en 3.738 höfðu ekki lögheimili á Íslandi, eða 10,1%.,“ segir í tilkynningu Hagstofunnar.
Frá fyrsta ársfjórðungi 2013 hefur hlutfall innflytjenda af fjölda starfandi farið vaxandi í öllum landshlutum. Á fyrsta ársfjórðungi 2019 var hlutfallið hæst á Suðurnesjum og á Vestfjörðum og hafði aukist frá fyrsta ársfjórðungi 2016. Lægst er hlutfallið á Norðvesturlandi.
Einstaklingur sem fæddur er erlendis og á foreldra og báða afa og báðar ömmur sem einnig eru fædd erlendis, telst innflytjandi samkvæmt skilgreiningum Hagstofunnar. Aðrir teljast hafa einhvern íslenskan bakgrunn. Tölur um fjölda starfandi samkvæmt skráargögnum ná til allra einstaklinga með atvinnutekjur sem eru gefnar upp til staðgreiðslu