Myndlistarmaðurinn Birgir Breiðdal er á leiðinni til Seoul þar sem honum hefur verið boðið að taka þátt í opnunaratriði í HUB 8-verkefninu, árlegu útskriftarverkefni einnar virtustu tískuhönnunarakademíu Suður-Kóreu.
„Ég hef verið að vinna í undirbúningnum síðan í janúar og núna fer þetta ævintýri að bresta á,“ segir Birgir en lokaundirbúningur fer fram í Kóreu frá 1. júní til 7. júní en þá er sýningin. Hönnuðirnir á sýningunni vinna með mismunandi þemu og málverk Birgis eru hluti af þeim. „Búið er að hanna sjálfbæra fatalínu út frá málverki eftir mig þar sem meðal annars er notast við endurunninn striga. Ég verð þátttakandi í atriðinu og mála „live“ á föt eins módelsins á sýningarpallinum. Verkefnið er bæði spennandi og krefjandi.“
Í lok desember 2018 var Birgir ásamt fjölskyldu sinni í Mílanó eftir að hafa klárað fótboltaverkefni á Spáni þar sem heilt íslenskt stúlknaknattspyrnulið tók þátt í spænsku deildinni alla haustönnina 2018.
„Þegar verkefninu okkur lauk og stelpurnar farnar heim í jólaprófin var líf okkar í lausu lofti og við vissum ekki hver næstu skref yrðu. Á meðan dvöldum við á gömlum heimaslóðum í Mílanó þar sem ég bjó til margra ára á námsárunum og lærði arkitektúr. Þar hitti ég mjög góðan kóreskan vin minn sem flytur ítalskan hátískufatnað inn til Suður-Kóreu og í fyrsta sinn hittum við konuna hans sem er fatahönnður. Yfir einni máltíð var farið að skoða málverkin mín í símanum og þau voru svo hrifin að þau keyptu strax eitt og vinur þeirra í París annað. Upp kom þá hugmyndin að vera með sýningu í Seoul, þar sem þau sögðu mér að ég gæti gert vel með málverkin mín, þau myndu smellpassa í minimalismann sem er þar allsráðandi. Nokkrum dögum síðar var málið komið á skrið og hugmynd kviknaði um að skemmtilegt yrði að markaðssetja mig með því að láta mig taka þátt í tískusýningu – að mála á eina flíkina í miðri Cat Walk-sýningunni. Þetta þótti mér geggjað og eiginlega besta hugmynd sem ég hafði nokkurn tímann heyrt því á námsárunum langaði mig að læra fatahönnun líka.“
Formlegt boð barst svo fljótlega eftir áramótin og þá var bara að hrökkva eða stökkva. „Framtíðin var þarna í mikilli óvissu, ég í útlöndum með fjölskylduna og við heimilislaus. En ég get ekki sleppt þessu tækifæri og undirbúningurinn hófst strax.“
Mikill heiður
Birgir kemur fram í opnunaratriðinu og einnig koma fimm þjóðþekktir kóreskir listamenn við sögu.
„Mitt atriði er víst aðaldæmið og felur í sér að viðkomandi hönnuður hannar fimm flíkur með innblástur úr málverkunum mínum og á meðan allt er á fullu á sviðinu þá mála ég á eina flíkina. Verið er að útfæra atriðið þessa stundina og þegar ég kem til Seoul munu æfingar hefjast og standa yfir í viku. Það verður gríðarlega spennandi að fá að kynnast öllu þessu frábæra fólki sem hefur boðið mér að taka þátt. Persónulega finnst mér þetta einnig frábært tækifæri það sem ég hef aldrei komið til Asíu og núna gefst manni tækifæri á að kynnast nýjum heimi. Alltaf þegar ég hugsa um verkefnið þá kemur upp í hugann á mér hversu fallegt þetta boð er og mikill heiður. Ég ætla mér bara að njóta þess og geri litlar væntingar aðrar en að fá yndislega upplifun, njóta þessarar stundar og svo sjáum við til hvað gerist í framhaldinu.“
Út fyrir eigið laskað egó
Birgir bjó með fjölskyldu sinni við Comovatn á Ítalíu á árunum 2006-2009 og þar málaði hann mikið og sinnti námi í bland við að njóta lífsins með fjölskyldu sinni.
„En með mjög háu gengi evrunnar gekk dæmið ekki lengur upp og við fluttum til Íslands þar sem ég datt óvænt inn í þjálfun stúlkna í fótbolta og hef verið í því sleitulaust frá 2011. Ég hef einbeitt mér að því að gera þetta vel og hef meðal annars í samstarfi við knattspyrnufélögin sem ég hef unnið hjá, verið með sjö sumarknattspyrnuskóla sem eru eingöngu fyrir stúlkur. Þau námskeið hafa heppnast vel, verið vel sótt og mikil gleði ríkt á grasinu. Ég elska að vinna með börnum og þetta er klárlega ein af betri ákvörðunum sem ég hef tekið á ferlinum, börn kenna manni svo margt og gera mann að svo miklu betri persónu. Maður hættir að hugsa um sig og fer að hugsa um þau – fer út fyrir sitt eigið laskaða egó. Það eru gríðarleg forréttindi að fá að leiðbeina þeim inn í framtíðina.
Fótboltinn er svo miklu dýpri en bara að sparka í bolta og vinna leiki. Það sama má segja um fleiri greinar. Það kom mér mest á óvart hvað fótbolti er gott fræðsluverkfæri til að kenna börnum lífsleikni. Ég fæ oft hrós fyrir hvað ég næ vel til barna og foreldrar oft þakklátir en sannleikurinn er sá að þau kenna mér miklu meira en ég þeim, og í þessum heimi er ljós, umhyggja og kærleikur daglegt brauð og vart hægt að biðja um meira. Ég er með brennandi áhuga á þjálfun og stefni á að klára UEFA A-þjálfararéttindin á næstunni en er í smáhléi núna frá boltanum til að sinna þessu risaverkefni í Asíu.“
Í vandræðum með peningahliðina
Eftir sýninguna í Seoul munu Birgir og fjölskylda hans verja tíma með kóreskum vinum sínum og kynnast landinu þeirra nánar. Honum finnst mikilvægt að koma þeim skilaboðum á framfæri, ekki síst til ungs fólks, að þegar óvissan er mikil séu alltaf einhverjar dyr sem opnist.
„Ég var heimilislaus erlendis í mikilli óvissu um framtíðina þegar ég er allt í einu kominn á tískusýningu með myndlistarívafi í Seoul, úr mjög lágum punkti í háan. Eftir sýninguna verð ég tilbúinn með pensilinn komi kallið, ég elska að hafa hlutina ekki of skipulagða heldur bara finna mig dag frá degi, hvað hentar best. Svo væri gaman að halda sýningu með haustinu því ég er með glæný verk í bígerð sem ég mun byrja að kynna í Seoul. Ef allt gengur að óskum verður önnur sýning í í Seoul og tímarnir því mjög spennandi,“ segir Birgir.
„Allur minn drifkraftur fer í það sem ég tek mér fyrir hendur hverju sinni og er alltaf eitthvað sem ég brenn fyrir. „Ég byrja aldrei að hugsa hvað ég fái peningalega út úr því sem ég er að fara að gera og á oft í miklum vandræðum með þann lið, mætti bæta hann, en að sama skapi finnst mér peningar of oft ráða för í framkvæmdum. Hagnast ég eða ekki, spyr ég mig aldrei, trúi bara að þetta blessist og ferðalagið verði skemmtilegt þótt pyngjan sé sjaldan yfirfull hjá mér,“ segir hann hlæjandi að lokum.
Birgir er á Facebook undir nafninu Birgir Breiddal – Biggi og fljótlega mun heimasíðan iambirgir.com fara í loftið. Innslag um ferðina til Seoul verður að sögn Birgis sýnt á RÚV í haust.