Fækkað hefur um sextíu fyrrverandi starfsmenn WOW milli apríl og maí á lista vinnumálastofnunar vegna greiðsla atvinnuleysisbóta. Þetta kemur fram í minnisblaði Vinnumálastofnunar til félagsmálaráðuneytis vegna gjaldþrots WOW.
Fréttablaðið greinir frá minnisblaðinu nú í morgun. Í dag eru 621 fyrrverandi starfsmanna WOW á skrá hjá Vinnumálastofnun. Í minnisblaðinu kemur fram að 680 starfsmenn hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir apríl.
Fréttablaðið ræðir við Gísla Davíð Karlsson, þjónustustjóra hjá Vinnumálastofnun, sem segir að skráning á atvinnuleysi meðal fyrrverandi starfsmanna WOW gefi ekki fulla mynd af stöðunni.
Vinnumálastofnun hefur samkvæmt Gísla ekki sérstaka mynd af þróun mála hjá hópnum. „Það eru vísbendingar um að það sé að hægjast um í hagkerfinu en þarna eru margir einstaklingar sem standa sterkir að vígi varðandi vinnumarkaðinn – ég held að meginþorri þeirra sé með háskólamenntun. En svo er spurning með framboð af störfum við hæfi,“ hefur Fréttablaðið eftir honum.