Knattspyrnufélagið Valur er ríkasta íþróttafélag á Íslandi. Sú staða gerir Vali kleift að bjóða upp á aðstöðu, aðstæður og launagreiðslur sem önnur íþróttafélög geta illa eða ekki keppt við. Niðurstaðan er sú að Valur er í fremstu röð á öllum vígstöðum helstu hópíþrótta á Íslandi hjá báðum kynjum og hirðir hvern titilinn á fætur öðrum. Sagan á bakvið þennan uppgang er hins vegar stór og mikil og er rakin í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vefsíðu Kjarnans.
Á árunum 1990-1992 hafði karlalið Vals í knattspyrnu unnið þrjá bikarmeistaratitla í röð og tekið þátt í Evrópukeppni. Handboltalið Vals var líka það besta á Íslandi á tíunda áratugnum og vann hvern Íslandsmeistaratitilinn á fætur öðrum. Sögulega var félagið stórveldi.
En fjárhagur Vals var í molum. Skuldir söfnuðust upp ár frá ári og voru að sliga allan rekstur.
Knattspyrnudeildin var í verstum málum, enda fjárfrekust. Sú staða fór að endurspeglast í frammistöðunni á vellinum og árið 1999 náði þetta niðurlægingarskeið félagsins fullkomnun þegar Valur féll úr efstu deild knattspyrnu karla í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Það sem gerði fallið enn verra var að Íslandsmeistaratitillinn það árið fór til stórveldis þess tíma, nágranna Vals úr Vesturbæ Reykjavíkur, KR.
Ári áður hafði KR gert eitthvað sem var ekki þekkt í íslenskum íþróttaheimi. Nokkrir gallharðir stuðningsmenn stofnuðu eignarhaldsfélagið KR-sport sem hafði þann tilgangi að styðja við rekstur knattspyrnudeildar KR og í raun taka yfir rekstur hennar. Skráðir stofnendur voru tveir, Björgólfur Guðmundsson og Haukur Gunnarsson.
Inn í félagið var greitt hlutafé sem síðan átti að vera hægt að ávaxta og nota ágóðann af því til að styrkja fjárhagslega rekstur knattspyrnuliðs KR. Á meðal fjárfestinga sem KR-sport réðst í var að kaupa þrjá veitingastaði á Eiðistorgi: Rauða ljónið, Koníaksstofuna og Sex Baujuna. Líkast til má deila um ágæti þeirrar fjárfestingar.
Ýmsir harðir stuðningsmenn Vals, sem áttu fjármuni og fullt af vilja til að gera vel fyrir félagið sitt, horfðu til þess að KR-leiðin gæti verið leið sem nýst gæti þeim.
Á annan tug kjölfestufjárfesta
Í byrjun desember 1999 var félagið Valsmenn hf. stofnað til að „vera sjálfstæður fjárhagslegur bakhjarl fyrir Knattspyrnufélagið Val“. Alls lögðu á annan tug einstaklinga fram eina milljón króna í fyrstu. Þeir urðu svokallaðir „kjölfestufjárfestar“ í hinu nýja félagi. Á meðal þeirra sem tilheyrðu þeim hópi var margt þjóðþekkt fólk. Helstu drifkraftarnir voru annars vegar Grímur Sæmundsen, fyrrverandi leikmaður Vals og nú helsti eigandi og stjórnandi Bláa lónsins, og Helgi Magnússon, stórtækur fjárfestir sem um árabil var einnig stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Á meðal annarra sem lögðu fram milljón krónur voru Guðni Bergsson, einn ástsælasti sonur Vals og þá enn atvinnumaður í knattspyrnu, og fjölmiðlamaðurinn Ingvi Hrafn Jónsson, sem á síðustu árum er best þekktur fyrir rekstur sjónvarpsstöðvarinnar sálugu ÍNN.
Fleiri velunnurum Vals var í kjölfarið boðið að leggja til lægri fjárhæðir. Alls söfnuðust hlutafjárvilyrði fyrir 50 milljónum króna og á endanum innheimtust 43 milljónir króna af þeim. Flestir lögðu til mjög lágar upphæðir, um tíu þúsund krónur.
Í fyrstu stjórn Valsmanna hf. sátu Brynjar Harðarson, fyrrverandi handboltaleikmaður hjá Val og íslenska landsliðinu sem var formaður, Helgi Magnússon, Elías Hergeirsson, Friðrik Sophusson, fyrrverandi ráðherra og áhrifamaður í stjórnmálum um árabil, Stefán Gunnarsson, Kjartan G. Gunnarsson og Örn Gústafsson.
Fyrsti skráði framkvæmdastjórinn var lögmaðurinn Brynjar Níelsson, síðar þingmaður Sjálfstæðisflokks og mikill Valsari.
Brynjar Harðarson tók þó fljótlega við öllum rekstri félagsins sem snérist um að fjárfesta fyrir hlutaféð. Það var meðal annars gert með kaupum á stóru auglýsingaskilti sem sett var upp við Hlíðarenda og kaupum á verðbréfum.
Þessi fyrstu ár var ávöxtunin nokkrar milljónir króna á ári. Það var vissulega búbót fyrir skuldum hlaðið félag en var ekki að fara að umbylta rekstrinum á Hlíðarenda.
Áttu landið
Valur var í þeirri einstöku stöðu að eiga landið þar sem félagið stundaði starfsemi sína, á Hlíðarenda. Það hafði átt það frá því maímánuði 1939. Það reyndist á endanum mesta lukka Vals að hafa fest sér þetta land sem um 90 árum síðar varð eitt verðmætasta byggingarland í höfuðborg landsins.
Valsmenn hf. höfðu áhuga á að nýta sér þessa einstöku stöðu til að styrkja Val og bæta aðstöðu félagsins. Fyrsta skrefið sem stigið var til þess var að gera samning við Reykjavíkurborg hinn 11. maí 2002 um Hlíðarendasvæðið. Samkvæmt honum lét Valur hluta af erfðafestulandi Vals undir umferðarmannvirki sem tengdust m.a. legu nýju Hringbrautarinnar og stórt svæði sem átti að skipuleggja sem lóðir með fram Flugvallarvegi og Hlíðarfæti. Samhliða var gerður lóðaleigusamningur um það svæði sem íþróttasvæði Vals stendur á.
Á þessum tíma skuldaði Valur um 200 milljónir króna og við blasti að umtalsverða fjármuni þurfti til að fjárfesta í bættri aðstöðu á svæði félagsins. Samningurinn sem gerður var við Reykjavíkurborg var metin á tæpan einn milljarð króna. Þá fjármuni átti að fá með því að selja byggingarétt af lóðunum sem Valur lét frá sér í samkomulaginu og viðbótarlóðum sem Reykjavík átti við svæðið.
Fjármunirnir áttu að notast annars vegar til að greiða niður skuldir Vals og hins vegar að fjármagna 780 milljóna króna uppbyggingu mannvirkja. Á meðal þess sem átti að byggja var íþróttahús með áfastri útistúku og aðalleikvang við hlið þess. Mannvirki sem í dag eru risin og bera nöfnin Origo-höllin og Origo-völlurinn.
Fréttaskýringuna í heild sinni má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vefsíðu Kjarnans.