Jessica LoMonaco sem er að gyðingaættum og hefur verið búsett á Íslandi í fimm ár segir að umræðan á íslenskum samfélagsmiðlum setji málið upp eins og um átök milli gyðinga og múslima sé að ræða þegar talað er um átökin fyrir botni Miðjarðarhafsins en Jessica segir að málið sé mun flóknara en svo.
„Það er skrítin uppstilling,“ segir Jessica en hún er ásamt Nazimu Kristínu Tamimi, sem er múslimatrúar, í forsíðuviðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs. „Ég hef aldrei upplifað nein átök á milli þessara hópa, sérstaklega ekki hér á Íslandi. Hér eru bæði gyðingar og múslimar minnihlutahópar sem standa saman og standa oft fyrir sameiginlegum viðburðum. Við hjálpumst að og ég held að það sé sama sagan víðast hvar í heiminum. Það er æsifréttamennska að stilla þessu upp sem gyðingum á móti múslimum. Það er bara ódýr leið til að spila á reiði og tilfinningasemi og gefa fólki tækifæri á að velja á milli þessara hópa og það held ég að sé hættulegt vegna þess að þegar fólk fer að velja sér „lið“ til að halda með er alltaf stutt í það að einhver sé gerður að vonda kallinum og allt sé honum að kenna. Þessi hugsunarháttur er ekki raunveruleiki í mínum heimi og reyndar ekki hjá neinum sem ég þekki. Átökin í Palestínu hafa minnst með trúarbrögð að gera og þessi afstaða gerir bara illt verra.“
Fréttaflutningur hlutdrægur
Jessica fullyrðir að íslenskir fjölmiðlar séu mjög hlutdrægir í þessari umræðu og fréttaflutningur hér sé á allt öðrum nótum en hún er vön frá Bandaríkjunum.
„Ísland er mjög hliðhollt Palestínu og dregur enga dul á það í fréttaflutningi,“ segir hún. „Bandarískir miðlar eru aftur á móti hliðhollir Ísrael svo þeirra áherslur eru allt aðrar. Munurinn á fréttum íslenskra og bandarískra miðla af átökunum í Miðausturlöndum er gríðarlegur og maður veit ekki alveg hvað er í rauninni rétt.“
Svo það er þá erfiðara að vera gyðingur á Íslandi en í Bandaríkjunum?
„Það er engin spurning,“ segir Jessica með áherslu. „Þar sem ég ólst upp í New York er töluvert stórt gyðingasamfélag og mun fjölbreyttara en hér. Það er mjög erfitt að fylgja ekki fjöldanum á Íslandi og marka sér sinn sess. Maður þarf að sleppa stórum hluta af menningararfi sínum sem maður myndi annars rækta og það breytir því hvernig þú nálgast hlutina.“
Viðtalið í heild sinni má lesa hér.