Í hverri viku velur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góðu gengi að fagna í vikunni og hina sem hafa átt betri vikur. Í þessari viku er það útvarpsstjórinn Magnús Geir sem fyllir fyrrnefnda dálkinn en knattspyrnumaðurinn Gary Martin fær hinn síður eftirsótta.
Góð vika: Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri
Það er gósentíð í herbúðum RÚV um þessar mundir nú þegar Eurovision-æðið gengur yfir landann. Miðlar RÚV eru undirlagðir af umfjöllun um ævintýri Hatara, svo mikið að jafnvel þingmenn hafa séð sig tilneydda til að kvarta undan magninu. Eftir mögur ár þar sem keppendur Íslands hafa snúið heim fyrir sjálft úrslitakvöldið fær íslenska þjóðin loks að taka þátt í partíinu. Ekki bara kallar það á meiri umfjöllun þar sem allra augu verða á Ríkissjónvarpinu, heldur má ljóst liggja í hvaða átt auglýsingatekjurnar streyma þessa helgina.
Slæm vika: Gary Martin, leikmaður Vals
Íslandsmeistarar Vals hafa byrjað tímabilið afleitlega og það er líka basl á liðinu utan vallar. Það kom upp á yfirborðið þegar þjálfarinn, Ólafur Jóhannesson, tilkynnti að enski stjörnuframherjinn Gary Martin mætti yfirgefa félagið eftir aðeins þrjá leiki. Martin er einn dýrasti bitinn á leikmannamarkaðinum og var búist við miklu af honum fyrir tímabilið. Skýringar þjálfarans um að Martin henti ekki leikstíl liðsins eru hæpnar og málið varð enn undarlega þegar framherjinn lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að fara fet.