Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Fjöllistaskemmtun með fullorðinsívafi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í kvöld verður burleskhópurinn Dömur og herra, sem heldur mánaðarlegar kabarettsýnigar, með sérstaka bingósýningu en hópurinn safnar nú fyrir ferðalagi til New York. Margrét Dóróthea Jónsdóttir er meðlimur í sýningunni og verður bingóstjóri kvöldsins.

„Sýningin og bingóið eru lokahnykkurinn í söfnunarátaki hópsins sem stefnir á burleskpílagrímsferð til New York í lok maí,“ segir Margrét en hluti hópsins er einnig á leið á Brighton Fringe-hátíðina um miðjan maí. Hópurinn samanstendur af fólki úr ólíkum áttum en þar eru til dæmis tölvunarfræðingur, ljósmyndari, blaðamaður, jarðfræðingur og ríkjandi dragdrottning Íslands, Gógó Starr.

„Sýningin samanstendur af ólíkum einstaklingsatriðum sem meðlimir hópsins hafa búið til. Kynnir kvöldsins, Gógó Starr, heldur uppi stemningunni þar á milli og svo til að brjóta þetta upp verða nokkrir bingóleikir. Þeir verða með klassísku sniði, ég er sjálf bingóstjóri kvöldsins og vinningarnir eru alls ekki af verri endanum,“ segir hún en vinningar koma meðal annars frá Nexus, Valkyrie tattústofu, Kramhúsinu og Kormáki og Skildi. „Þar sem sýninguna ber upp á Stjörnustríðsdaginn, 4. maí, munum við sleppa fram af okkur nördabeislinu og vitna í hin ýmsu verk.“

Margrét Dóróthea og Gyða Bjarkadóttir eru báðar meðlimir í burleskhópnum Dömur og herra. Mynd / Hrafna Jóna Ágústsdóttir

Seiðandi og þokkafull
Aðspurð um hugtakið burlesk segir Margrét það í sjálfu sér regnhlífarhugtak yfir fjöllistaskemmtun með fullorðinsívafi. „Þar er blandað saman gríni, þokka, undrum mannslíkamans í öllum stærðum og gerðum, tónlist, töfrum og tælingu. Það eru að sjálfsögðu mismunandi stefnur til eins og í öðrum listgreinum. Ein okkar, Maria Callista, er til dæmis framúrskarandi í því sem kallað er klassískt burlesk, einstaklega seiðandi og þokkafull. Sjálf hef ég frekar hallast að nýburleski sem er kannski aðeins minna sexí og aðeins meira skrítið. Nördlesk er svo önnur undirgrein, töluvert nýrri af nálinni, og þá er innblásturinn fyrir atriðin sóttur í poppkúltúr, sjónvarpsþætti, bíómyndir, tölvuleiki, hvað sem er.“

Margrét segir að hópinn mætti kalla ungliðahreyfingu íslensku burlesksenunnar. „Hópurinn varð til á námskeiði hjá Margréti Maack fyrir rúmum tveimur árum og við pössuðum svona ljómandi vel saman, eins ólík og við erum innbyrðis. Við höfum því ekki stundað þetta svo lengi og bara eitt okkar, Gógó, hefur þetta að atvinnu, svo við erum ansi frjáls í forminu. Engu að síður höfum við brennandi áhuga og leggjum mikinn metnað í sýningarnar okkar,“ segir Margrét.

„Þar er blandað saman gríni, þokka, undrum mannslíkamans í öllum stærðum og gerðum, tónlist, töfrum og tælingu.“

Hópurinn ákvað svo að fara saman til New York af því þar er mikil gróska í burleski. „Senan á Íslandi er frábær og ótrúlega blómleg miðað við ungan aldur en það er hollt og gott að fara og upplifa eitthvað nýtt, sjá hvernig aðrir túlka þetta listform og fá innblástur. Við njótum góðs af tengslum við vinaklúbb Reykjavík Kabarett, The Slipper Room, þar sem burlesk er sýnt á hverju kvöldi og stefnum á að fara í tíma í The New York School of Burlesque til að bæta við okkur nýrri tækni. Þar kenna listamenn á heimsmælikvarða,“ segir hún að lokum.

Sýningin verður á Húrra í kvöld og hefst kl. 21. Bingóspjald fylgir hverjum miða og hægt að kaupa fleiri á 500 kr. stykkið. Húsið opnar klukkutíma fyrir sýningu og hún er bönnuð þeim sem eru yngri en 20 ára.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -